mánudagur, janúar 09, 2006

Lexía í auðmýkt

Ég tek aftur allar fyrri yfirlýsingar um snilligáfu mína. Ég verð einfaldlega að játa að sú snilld sem mér var gefin í vöggugjöf er fremur takmörkuð. Atvik sem henti mig í gærkvöldi vitnar um þetta, dæmið bara sjálf. Ég heimsótti Svövu systur í gærkvöldi og þegar heim kom fann ég að húðin á höndunum á mér var óvenjulega þurr og stöm. Ég fór því inn á baðherbergi til að leita að góðum handáburði. Ég fann ekkert slíkt en greip þarna kremtúpu sem ég sá í hálfgerðri þokumóðu (ég var gleraugnalaus)að á stóð einhver skrift og innihaldslýsing og moisterizer neðst. Þetta nægði mér og ég smurði þessu vandlega á hendurnar á mér. Í morgun áttaði ég mig svo á því að ég hafði borið andlitsbrúnkukrem dóttur minnar á hendurnar og þær eru núna viðbjóðslega kúkabrúnar en restin af líkama mínum jafnkrítarhvítur og venjulega.