föstudagur, október 07, 2005

Mitt rétta andlit

Jæja, þá er komið að því að óhætt fari að svipta hulunni af mínu rétta andliti. Þið verðið hins vegar að lofa að þegja. Ég er leynivinur, Guðnýjar í skönnuninni, og hef sent henni alls konar dót alla vikuna. Hverri sendingu hefur fylgt vísa. Þetta var sú fyrsta sem fylgdi tréstytta af stúlku.

Guðný þú ert væn og góð
Vingjarnleg í framan.
Þú ert eins og rósin rjóð
Að rækta þig er gaman.

Næsta sending var súkkulaðibitakaka og kókossúkkulaði.

Ég vildi þín reyna að freista
og því máttu sannlega treysta
að góðgæti nú
mín eðla frú
mun efla þinn gleðineista.

Þriðji pakkinn var freyðibað með endurnærandi ilmi af sítrónugrasi.

Þegar viltu þig lauga og vaska
þá máttu allra síst á því flaska
að anda ekki djúpt
því það er svo ljúft
og láta ekkert ró sinni raska.

Að lokum sendi ég henni kind sem hló þegar þrýst var á kviðinn á henni, súkkulaði og baðbombu.

Hér færi ég þér myndarkind
sem í vexti minnir á hind
En ef um miðjuna tekur
hún hlátur þér vekur
sem þjálfa mun þína þind.

Ég vil þig kveðja og þakka
fyrir að fá að færa þér pakka.
Það er skemmtun slík
að engu er lík
og nú ég til jólanna hlakka.

Leynivinir í hverju horni

Síðastliðin vika hefur verið leynivinavika hér í vinnunni. Allir drógu sinn leynivin og síðan þá hefur verið mikið um að vera þegar snemmbúnir jólasveinar laumast um gangana og reyna að gleðja sína vini. Það er hreint ótrúlegt hversu hugmyndaríkir og skemmtilegir sumir hafa verið. Minn leynivinur er sá allra besti í fyrirtækinu. Hann hefur fært mér blóm og gjafir og alls konar skemmtilegheit. Á tölvunni minni situr lítill bangsi og á skrifborðinu engill sem vakir yfir mér. Alveg er það ótrúlegt og ég hefði aldrei trúað því að óreyndu hvað þetta getur glatt mann.
Framkvæmdastjórinn okkar hann Þórir á hins vegar mjög hugmyndaríkan leynivin sem lagði á borð fyrir einn daginn, kveikti á kerti og reiddi fram morgunverð. Næsta dag var hann leiddur fram í matsal af einni fallegustu konunni hér innandyra. Hún lagði hann í sófa, breiddi yfir hann og bar fegrunarmaska í andlitið á honum. Síðan var hann beðinn að taka síestu að suðrænum sið og bent á að þótt hann væri myndarmaður þá mætti jafnvel hið besta bæta og þess vegna fengi hann þetta bjútítrítment fyrir árshátíðina. Að lokum stakk svo leynivinurinn upp á að komið yrði fyrir fleiri legubekkjum svo allir starfsmenn gætu tekið síestu í hádeginu.

Og þá buldi brestur

Ég hrökk upp í nótt við hávært brakhljóð og rauk á fætur bölvandi. Ég var þess fullviss að tíkin hefði náð í þunnan harðplastbakka undan kexi og væri að narta í hann sér til skemmtunar um miðja nótt. Aldrei þessu vant reyndist Freyjan mín alsaklaus því hún lá sofandi undir rúmi. Hávaðanum olli haglél sem buldi með þessum líka roknalátum á þakinu.