Mitt rétta andlit
Jæja, þá er komið að því að óhætt fari að svipta hulunni af mínu rétta andliti. Þið verðið hins vegar að lofa að þegja. Ég er leynivinur, Guðnýjar í skönnuninni, og hef sent henni alls konar dót alla vikuna. Hverri sendingu hefur fylgt vísa. Þetta var sú fyrsta sem fylgdi tréstytta af stúlku.
Guðný þú ert væn og góð
Vingjarnleg í framan.
Þú ert eins og rósin rjóð
Að rækta þig er gaman.
Næsta sending var súkkulaðibitakaka og kókossúkkulaði.
Ég vildi þín reyna að freista
og því máttu sannlega treysta
að góðgæti nú
mín eðla frú
mun efla þinn gleðineista.
Þriðji pakkinn var freyðibað með endurnærandi ilmi af sítrónugrasi.
Þegar viltu þig lauga og vaska
þá máttu allra síst á því flaska
að anda ekki djúpt
því það er svo ljúft
og láta ekkert ró sinni raska.
Að lokum sendi ég henni kind sem hló þegar þrýst var á kviðinn á henni, súkkulaði og baðbombu.
Hér færi ég þér myndarkind
sem í vexti minnir á hind
En ef um miðjuna tekur
hún hlátur þér vekur
sem þjálfa mun þína þind.
Ég vil þig kveðja og þakka
fyrir að fá að færa þér pakka.
Það er skemmtun slík
að engu er lík
og nú ég til jólanna hlakka.