föstudagur, október 07, 2005

Leynivinir í hverju horni

Síðastliðin vika hefur verið leynivinavika hér í vinnunni. Allir drógu sinn leynivin og síðan þá hefur verið mikið um að vera þegar snemmbúnir jólasveinar laumast um gangana og reyna að gleðja sína vini. Það er hreint ótrúlegt hversu hugmyndaríkir og skemmtilegir sumir hafa verið. Minn leynivinur er sá allra besti í fyrirtækinu. Hann hefur fært mér blóm og gjafir og alls konar skemmtilegheit. Á tölvunni minni situr lítill bangsi og á skrifborðinu engill sem vakir yfir mér. Alveg er það ótrúlegt og ég hefði aldrei trúað því að óreyndu hvað þetta getur glatt mann.
Framkvæmdastjórinn okkar hann Þórir á hins vegar mjög hugmyndaríkan leynivin sem lagði á borð fyrir einn daginn, kveikti á kerti og reiddi fram morgunverð. Næsta dag var hann leiddur fram í matsal af einni fallegustu konunni hér innandyra. Hún lagði hann í sófa, breiddi yfir hann og bar fegrunarmaska í andlitið á honum. Síðan var hann beðinn að taka síestu að suðrænum sið og bent á að þótt hann væri myndarmaður þá mætti jafnvel hið besta bæta og þess vegna fengi hann þetta bjútítrítment fyrir árshátíðina. Að lokum stakk svo leynivinurinn upp á að komið yrði fyrir fleiri legubekkjum svo allir starfsmenn gætu tekið síestu í hádeginu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home