Makindalegar mæðgur
Við Freyja erum makindalegar mæðgur um þessar mundir. Við vöknum um níu á morgnana, förum í morgungöngu og leggjumst siðan út í garð og liggjum þar eins og tveir ullarpokar nánast allan daginn. Freyjan mín er svo stillt þessa dagana að ég er dauðhrædd um að hún sé hvolpafull eftir hið hroðalega ævintýri með dvergterríernum. Fyrir ykkur sem ekki hafið frétt af því þá var Freyja á lóðaríi nýlega og hvarf. Við Gummi leituðum hátt og lágt um Kópavoginn og fundum hana loks við Digraneskirkju í samkrulli með terríer-hundi sem var um það bil einn níundi af hennar stærð. Hún virtist engu að síður bráðskotin í dvergnum og þverneitaði að koma þegar Gummi kallaði. Hann hljóp hana loks uppi með klækjum og var svo reiður þegar hann kom heim að hann hreytti út úr sér: Nú verður þú læst inni glyðran þín. Freyja gekk undir nafninu glyðran í nokkra daga á eftir en ég vona að hundkvikindið hafi verið of lítið til að gera nokkuð gagn. Hvað um það þá ætti fljótlega að koma í ljós hvort eitthvað hefur gerst.