fimmtudagur, september 23, 2004

Sá eini rétti, þjóðsaga eða raunveruleiki

Rithöfundurinn Oscar Wilde sagði að einmanaleiki væri þráin eftir sálufélaga. Sjálfur var hann giftur konu sem hann bæði virti og elskaði en átti í erfiðu ástarævintýri við ungan aðalsmann sem sveik hann og varð þess óbeint valdandi að Oscar var dæmdur í fangelsi fyrir samkynhneigð.

Við vitum að Oscar fann sárt til einmanaleikans í fangelsinu, um það vitnar Kvæðið um fangann, en allmargir lifa ákaflega heilbrigðu og góðu lífi án þess að finna nokkru sinni sálufélaga. Þeir eru líka til sem aldrei segjast vera einmana. Skyldi það þá vera tóm vitleysa að einhvers staðar í heiminum leynist einn réttur maki handa hverjum og einum jarðarbúa?

Nýleg rannsókn, sem gerð var á vegum Journal of Personality and Social Psychology, leiddi í ljós að menn þurfa að trúa að þeir hafi fundið sinn sálufélaga eða hinn eina eða einu réttu en einstaklingarnir geta verið jafnólíkir og svart og hvítt. Í góðum ástarsamböndum virðist fólk einfaldlega gera ráð fyrir að það eigi ákaflega margt sameiginlegt en það gerir lítið til að sannreyna að svo sé.

En hvernig gerist þetta yfirleitt? Jú, strákur hittir stelpu og þau hrífast hvort af öðru. Í fyrstu nálgast þau hvort annað varlega en til að styrkja tilfinningarnar leita þau bæði eftir staðfestingu á að hann/hún sé hinn eini eða sú eina rétta og þá einhvern veginn virðast öll smáatriði staðfesta að svo sé. Hann/hún er svo líkur mér, hann fílar alveg sömu tónlistina, hún vill nákvæmlega eins pítsu og ég, við höfum ferðast til sömu landanna og okkur líkar vel við sama fólkið.

Ástin er blind

Þessi atriði verða í huga hins ástfangna stórmerkilegar tilviljanir sem staðfesta að einmitt þessi var þér og engum öðrum ætlaður. Á sama tíma kann vel að vera að í ljós hafi komið að annar aðilinn er fótboltaáhugamaður en hinn sér ekkert nema körfubolta. Það getur líka verið að annar hafi áhuga á útivist en hinn kunni best við sig innan dyra, uppi í rúmi með bók. Ástfangnir leiða slíkt hins vegar gjarnan hjá sér og velta því aldrei fyrir sér hvort það muni valda vandræðum seinna meir.

Hvers vegna elskum við einhvern? „Af því bara ég elska þig?“ sagði tveggja ára stúlka þegar mamma hennar spurði hana af hverju hún elskaði mömmu sína. Þetta er í raun mun betra svar en nokkuð það sem fullorðna fólkinu kynni að detta í hug. Staðreyndin er nefnilega sú að þú elskar ekki maka þinn af því að hann er svo góður, myndarlegur, umhyggjusamur, metnaðargjarn eða gáfaður. Það eru mun frekar allir hans kostir samanlagðir sem gera það að verkum að þú elskar hann út af lífinu og þú elskar þrátt fyrir gallana sem vissulega eru fjölmargir.

Emily Dickinson sagði: „Hjartað þráir það sem það þráir.“ Og þar sem hjartað er einfaldlega svo ólíkt huganum þarf það ekki að færa rök fyrir vilja sínum og löngunum, þær eru bara svona. Það kann vel að vera að þetta hljómi órómantískt og hálfleiðinlega. Það gerir einhvern veginn líka lítið úr ástinni að segja: „Ég tel að við séum sálufélagar af því að ég er búin að telja mér trú um það.“

En þá má ekki gleyma því að örlítil sjálfsblekking getur orðið að veruleika með tíð og tíma og þar með er parið hamingjusamt jafnvel um aldur og ævi. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að slíkt hefur gerst og er enn að gerast. Það er einfaldlega eðli ástarinnar. Þetta ætti líka að vekja vonir margra því þú þarft ekki lengur að vera sálufélagi einhvers þú þarft einfaldlega að telja honum trú um að svo sé og það hlýtur að vera auðveldara en að finna einhvern sem fellur að skapferli þínu eins og hanski að hönd.

Ferðalangar og flakkarar

Í gær var bílinn minn á verkstæði. Ég var því bíllaus með sóma og sann frá átta um morguninn til klukkan fimm í eftirmiðdaginn. Reyndar var farið að fara um mig þegar lok vinnudagsins nálguðust og enn bólaði ekkert á bílnum. Ég hringdi þess vegna í verkstæðið og fékk þær upplýsingar að bílinn hefði ekki verið tekinn inn fyrr en örskömmu áður og ekki víst að hægt væri að ljúka verkinu fyrir lokun. Ég bar mig aumlega við þessi tíðindi, enda gönguferð framundan í góðra vina hópi og saumaklúbbur um kvöldið. Ég sá engin ráð til að komast á báða staði bíllaus. Afgreiðslumaðurinn var þá svo einstaklega elskulegur að benda mér á að dagurinn væri bíllaus og ókeypis í strætisvagna. Ég kvað samt ótal tormerki á því að ég kæmist leiðar minnar og afgreiðslumaðurinn ljúflyndi stakk því þá að mér að erfitt væri að giska á hvernig afar og okkar og langafar hefðu farið að við svipaðar aðstæður. Þetta hefði hann ekki átt að gera því þarna var ég á heimavelli. Ég stakk því að honum að afar okkar og langafar hefðu sjaldnar þurft að bregða sér af bæ en við og hver maður að meðaltali einu sinni lagt upp í langferð á ævi sinni. Langfeður vorir hefðu sömuleiðis haft þarfasta þjóninn sér til aðstoðar og þess vegna hefði engum með fullu viti jafnvel í þá tíð dottið í hug að labba úr Vesturbænum upp í Breiðholt nema brýna nauðsyn bæri til. Menn fyrri tíðar voru þar að auki ekkert sérstaklega hrifnir af flökkurum. Þeir voru umsvifalaust handsamaðir og sendir aftur í sína heimasveit ef í þá náðist. Langafi hefði sennilega ekki verið hrifinn af því að Sölvi Helgasson fengi ókeypis í strætó og kæmist þannig á framfæri hans hrepps. En ég fékk bílinn svo ekki reyndi á kraft postulahesta minna að þessu sinni né heldur sjálfsbjargarviðleitni mína á ögurstundu.