mánudagur, júlí 18, 2005

Gönguferð í Glerhallavík

Eftir að úthátíðinni GIN 2005 lauk formlega fórum við hjónin í gönguferð í Glerhallavík ásamt skipstjóranum, Jóel, Ölmu konu hans og Stefáni netamanni og Vilborgu konu hans. Ég hafði heyrt að í víkinni væri að finna mikið af afburðafallegum steinum og með þessum fátæklegu upplýsingum æsti ég þau hin til að koma með mér í landkönnun í hífandi roki og skítakulda. Ekki tókst betur til en svo að við gengum yfir víkina og vorum komin lengst upp í brekkur Tindastóls þegar Stefán og Gummi ákváðu að fara í könnunarferð meðan við hin biðum. Þeir sáu ekkert framundan annað en fleiri þýfðar, lyngvaxnar brekkur og þá hugkvæmdist skynsemdarskepnunni sem ég er gift að hringja í mömmu sína sem hafði komið í víkina. Lýsing gömlu konunnar varð til þess að við snerum við og gengum fjöruna aftur. Að þessu sinni tókst okkur að finna nokkra litla mola en eftir að hafa flett upp glerhöllum í Alfræðiorðabókinni kom í ljós að þetta eru dropasteinar. Að uppistöðu kalsedón sem er þétt afbrigði af kvarsi. Þessir kristallar setjast í holufyllingar eða mynda dropasteina með úrfellingu á jarðhitasvæðum. Við fundum reyndar ekki nema litla mola en það á víst að vera hægt að finna glæsilega og stóra steina með þéttri holufyllingu á þessum stað. Ókunnugleiki okkar og miklar væntingar gerðu það hins vegar að verkum að við leituðum ekki í fjörugrjótinu heldur áttum von á að ganga fram á hrúgur af glæsilegum eðalsteinum. Þegar það gerðist ekki gengum við framhjá en gangan var bráðskemmtileg og hressandi þótt hárgreiðslan á flestum hafi verið frjálsleg þegar komið var aftur í bílana.


Freyja lagði sig í sófa meðan hlátrasköllin gullu allt í kringum hana. Hún hreyfði sig ekki einu sinni þótt ein konan tyllti sér hjá henni. Posted by Picasa

Einstök skemmtun á GIN 2005

Áhöfnin á Guðmundi í Nesi ákvað í síðasta túr að halda útihátíð í Lauftúni í Skagafirði. Hátíðin fékk yfirskriftina GIN 2005. GIN stendur að sjálfsögðu fyrir Guðmundur í Nesi en Austurríkismenn sem komu á tjaldstæðið urðu fyrir miklum vonbrigðum þegar það var útskýrt fyrir þeim. Þeir sáu nefnilega fyrir sér rífandi stemmningu á brugghátíð í Skagafirði. En hátíðahöldin hjá áhöfninni hófust með því að siglt var niður Vestur-Jökulsá sem rennur í einstöku gljúfri gegnum Vesturdal í Skagafirði. Lagt var upp frá Bakkaflöt og ekið í um það bil hálftíma áður en komið var að þeim stað þar sem bátarnir leggja upp. Þegar á áfangastað var komið leit um tíma út fyrir að annað hvort okkar hjóna yrði eftir því Guðmundur hafði gripið alltof lítinn blautbúning en úr rættist þegar leiðsögumaðurinn léði okkur sinn og var sjálfur í þeim litla. Ferðin niður ána var sannkallað ævintýri. Bátsverjar reru af öllum mætti og þótt ýmsir, þar á meðal Steingerður, væru oft úr takti gekk allt stóráfallalaust. Að vísu misstum við einu sinni þrjá farþega og leiðsögumanninn útbyrðis en Gummi og Biggi skipsfélagi hans brugðu við skjótt og reru upp að ströndinni þar sem hinir horfnu skiluðu sér aftur. Þetta var því ekki bara tóm gleði heldur björgunaræfing líka. Eftir ferðina var haldið á tjaldstæðið og snæddur fyrirtaks kvöldverður sem samanstóð af forrétt; grilluðu sjávargulli úr Eyjafirði, aðalrétt; grilluðum Skagagrís og grilluðu Strandalambi og eftirrétt; Húsavíkurhafís. Eiginkonur skipverja lögðu til kartöflusalat og hrásalat og haldin var keppni um hver væri með besta salatið. Við borðið mitt var það haft í flimtingum að verðlaunin fyrir besta salatið væru extreme makeover að hætti Ameríkana. Ég gekk nokkuð hart fram í lýsingum á því hvernig verðlaunahafinn myndi líta út að ári og hefndist fyrir skepnuskapinn því ég vann. Það verður hins vegar látið lesendum eftir að ákveða og ímynda sér hvernig bæta megi útlit mitt á sjö vikum í yfirhalningu á ystu nöf. Kvöldið var stórskemmtilegt og eftir því sem ég verð eldri met ég þess meira að hitta skemmtilegt og frábært fólk. Ég og Alma skipstjórafrúin náðum strax tengslum og hún er einstaklega sæt og ljúf kona. Ég kunni líka vel við eiginkonu Agnars vélstjóra og Vilborgu konu Stefáns en ég veit ekkert hvað maðurinn hennar gerir um borð. Eftir kvöldmat var farið í leiki og ég lenti í að þræða egg uppeftir hægri buxnaskálm skipstjórans og niður þá vinstri. Alma þurfti að veita Guðmundi sömu þjónustu en báðum tókst okkur þetta stóráfallalaust þótt eggið væri á tímabili týnt í buxum Guðmundar. Þetta var frábær hugmynd hjá skipverjum og óskaplega skemmtileg ferð. Ég guggnaði reyndar á að gista í tjaldinu þessa rigningarnótt en við fengum inni í skemmu hjá bóndanum í Húsey og sváfum þar öll vel. Freyja sýndi nefnilega og sannaði um helgina að hún er mikill veisluhundur og það var sko enginn hundur í henni. Stundum fannst henni athygli smábarnanna fremur ógnvænleg en blessað dýrið var svo umburðarlynt og rólegt að með ólíkindum verður að teljast. Börn á öllum aldri struku henni (stundum öfugt), klipu hana, potuðu í nefið á henni og gerðu tilraun til að setja puttana í augun á henni og eitt settist á bak henni. Þrátt fyrir allt þetta hélt Freyja ró sinni og svaf um tíma í litlum sófa í veislusalnum meðan hlátrasköllin gullu allt í kringum hana.


Freyju leist stundum ekki nema mátulega vel á athyglina sem hún fékk í útilegunni. Posted by Picasa


Freyja í baði Posted by Picasa