mánudagur, júlí 18, 2005

Gönguferð í Glerhallavík

Eftir að úthátíðinni GIN 2005 lauk formlega fórum við hjónin í gönguferð í Glerhallavík ásamt skipstjóranum, Jóel, Ölmu konu hans og Stefáni netamanni og Vilborgu konu hans. Ég hafði heyrt að í víkinni væri að finna mikið af afburðafallegum steinum og með þessum fátæklegu upplýsingum æsti ég þau hin til að koma með mér í landkönnun í hífandi roki og skítakulda. Ekki tókst betur til en svo að við gengum yfir víkina og vorum komin lengst upp í brekkur Tindastóls þegar Stefán og Gummi ákváðu að fara í könnunarferð meðan við hin biðum. Þeir sáu ekkert framundan annað en fleiri þýfðar, lyngvaxnar brekkur og þá hugkvæmdist skynsemdarskepnunni sem ég er gift að hringja í mömmu sína sem hafði komið í víkina. Lýsing gömlu konunnar varð til þess að við snerum við og gengum fjöruna aftur. Að þessu sinni tókst okkur að finna nokkra litla mola en eftir að hafa flett upp glerhöllum í Alfræðiorðabókinni kom í ljós að þetta eru dropasteinar. Að uppistöðu kalsedón sem er þétt afbrigði af kvarsi. Þessir kristallar setjast í holufyllingar eða mynda dropasteina með úrfellingu á jarðhitasvæðum. Við fundum reyndar ekki nema litla mola en það á víst að vera hægt að finna glæsilega og stóra steina með þéttri holufyllingu á þessum stað. Ókunnugleiki okkar og miklar væntingar gerðu það hins vegar að verkum að við leituðum ekki í fjörugrjótinu heldur áttum von á að ganga fram á hrúgur af glæsilegum eðalsteinum. Þegar það gerðist ekki gengum við framhjá en gangan var bráðskemmtileg og hressandi þótt hárgreiðslan á flestum hafi verið frjálsleg þegar komið var aftur í bílana.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home