fimmtudagur, júlí 14, 2005

Fríheilkennið

Ég er illa haldin af fríheilkenninu fræga en helstu einkenni þess eru óviðjafnanleg leti. Þegar fríið byrjar er fólk fullt af orku og hellir sér umsvifalaust í það að gera allt sem setið hefur á hakanum lengi. Flestir vakna á skikkanlegum tíma á morgnana og vaka bara vel fram eftir kvöldi. Menn hafa ekki verið lengi í fríi þegar þetta rjátlast af þeim. Til byrja með vakna þeir að vísu á sama tíma á morgnana en sofna strax aftur. Viðfangsefnin sem biðu missa smátt og smátt gildi sitt og tiltektin á háaloftinu, kantskurðurinn í garðinum og viðhaldið á húsinu verða verkefni sem ekkert liggur á. Ég er sem sé komin á þetta stig og í stað þess að baka brauð fyrir næstu þrjá mánuði, skúra, skrúbba og bóna hrýt ég framundir hádegi, skrölti með tíkina í stöðugt styttri gönguferðir og ligg þess á milli afvelta hvar sem þægilegt legurúm finnst og les. Ég get nákvæmlega ekkert að þessu gert, fríheilkennið er nefnilega svo skætt að það leggst á mann algerlega óviðbúin og ekkert bóluefni er til.

2 Comments:

Blogger Svava said...

Kannast við fríheilkennið, hefur ráðist á mig og farið illa með mig í gegnum tíðina. En þetta er ekkert sem góð gönguferð um Hornstrandir getur ekki lagað.

11:17 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ekki hlusta á hana Svövu systur þína og fara í gönguferð á Hornstrandir!!!
Fríheilkenni er sjúkdómur sem leggst á langþreytt fólk og neyðir það til að slaka gjörsamlega á og hlaða batteríin fyrir veturinn. Hliðarverkanir eru kvíði fyrir því að koma aftur til vinnu.

En ... reyndar hefur Svava pínku rétt fyrir sér, ég vildi bara kóa upp í þér vitleysuna. Það er eflaust álíka heilsusamlegt að slaka vel á og að hlaupa í óbyggðum, en ég held að snarklikkað fólk geri frekar þetta síðarnefnda ... sorrí Svava!

12:29 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home