Veisluhöld og sumarfrí í rigningu og roki
Aldrei þessu vant hefur verið rigning og rok hér í Kópavoginum. Við hjónin erum í fríi og þetta er reyndar einnig í fyrsta sinn sem ekki skín sól og rjómablíða ríkir meðan frítími okkar varir. Jæja einu sinni verður allt fyrst. Útskriftarboð Andra var haldið með pompi og prakt hér á laugardagskvöldið og ekki bar á öðru en að allir skemmtu sér konunglega. Amma hans á Akureyri átti ekki orð yfir hvað drengurinn væri orðinn glæsilegur og fallegur. Að sjálfsögðu þótti mér lofið gott en velti fyrir mér hvort hún hefði ekki skoðað drenginn fyrr. Í mínum augum hefur hann nefnilega verið bæði glæsilegur og fallegur frá því hann fyrst leit dagsins ljós. Hvalurinn Svanhildur mætti í boðið og haft var á orði að fólk með stóra vömb ætti að stilla sig og borða ögn minna. Hvalurinn tók þessi komment alls ekki nærri sér heldur hló stórkarlalega og fékk sér enn meira af ís. Það kom einnig á daginn að hvalaskoðunartilboð Ragnars um daginn hafði komið frá hvalnum sjálfum en Ragnar borið boðin áfram. Það var nú reglulega gott að við fengum á sjá þessa sérstæðu hvalategund í öllu sínu veldi einmitt núna því tegundin er í bráðri útrýmingarhættu og verður allt öðruvísi í útliti í næsta mánuði.
2 Comments:
Til hamingju með drenginn :)
Spurðu hvalinn að því hvort góður tími til að "megrast" snögglega sé ekki bara 12. ágúst!!! Frábær afmælisdagur frábærs fólks um allan heim. Thor Vilhjálmsson, Guðríður Haraldsdóttir, Mark Knofler, Kaffi-Gurrí, Halldóra Geirharðsdóttir, Gurrí á Vikunni og margir fleiri alveg hreint æðislegir.
Hvalnum hefur þegar verið sagt af þessum frábæra afmælisdegi og hann er sammála því að þeir gerast ekki betri og augljóst að aðeins mikilmenni fæðast þennan dag.
Skrifa ummæli
<< Home