fimmtudagur, júlí 07, 2005

Slettur í sláturtíðinni

Andri kom hér í kvöld að hjálpa mömmu sinni að hreinsa portið. Hann hafði meðferðis háþrýstidælu tengdaföðurs síns og var vígalegur þegar hann var kominn í appelsínugulan regngalla og mundaði dæluna góðu. Ég horfði á Donald Trump reka einn vonarlærling og gáði ekki að pilti fyrr en þættinum lauk. Þá sá ég að hann lét dæluna ganga svo ég skipti mér svo sem ekki meira af því. Skömmu síðar kallaði piltur inn og lét vita að forstofan hefði fengið að kenna á dælunni. Ég fór niður og sá að ekki bara forstofan var á floti heldur var hugguleg tjörn í geymsluganginum og ofan á henni flaut ryksugan eins og sundfugl úr vísindaskáldsögu. Við tóku þrif og þvottar bæði á íbúðinni og pilturinn sem skilaði sér inn úr dyrunum var fallega kaffibrúnn af moldarslettum. Þegar ég sá andlitið á honum rifjaðist upp fyrir mér að maður nokkur á Vopnafirði hafði víst fengið á sig blóðgusu í sláturtíðinni og var ekki félegur. Einhver benti honum á þetta og hann svaraði: Já, það slettist í sláturtíðinni. Andri hefði sennilega getað tekið undir þetta en hann var kampakátur og sagði hress: Þetta var kannski aðeins of öflug buna. Þú vilt kannski að ég þrífi húsið með dælunni fyrir þig? Af einhverjum ástæðum afþakkaði ég en orðtakið að láta dæluna ganga hefur fengið nýja merkingu fyrir okkur mæðgin.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Alveg sér maður þetta fyrir sér, takk fyrir skemmtunina. Hahhahaha.
Þín er sárt saknað af "herbergisfélaganum" sem steingleymdi að setja blöð í póst til sinnar! Aftur á móti fá viðmælendur þínir blöð með skilum eftir helgi. Lofa að senda þér staflann á mánudaginn. Kannski hefur Freyja Guðmundsdóttir gaman af B&B eftir breytingar, sendi það til hennar til nags og ráðagerða.
Held þú ættir að berja Ragnar frá mér fyrir að kalla Svanhildi hval en samt var þetta alveg rosalega fyndið komment í hvalaleitina :)

4:44 e.h.  
Blogger Steingerdur hin storskorna said...

Takk fyrir elsku Gurrí mín og ég get sagt þér að það er ekki laust við að ég sakni þín líka. Eini gallinn við að vera í fríi er sá að þá sér maður Gurrí svo sjaldan.

10:33 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home