fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Skemmtilegar íþróttir

Af einskærri tilviljun kveikti ég á sjónvarpinu og sá í svip keppni í hlaupi á frjálsíþróttamóti. Þulurinn sagði: Hún fer fram úr Stumburófu og nær upp Ferilrófu. Þetta þótti mér skemmtilegt.

Enginn er verri þótt hann vökni

Helen systir heimsótti bloggsíðuna mína nýlega og kvaðst í kjölfarið sakna þess að ekki væri sagt frá ævintýraför okkar systra yfir á í Brekkuskógi á leið upp að Brúarfossi. Þarna er steinavað og fólk stiklar þetta víst þurrum fótum þ.e.a.s. flestir. Mér gekk vel framan af og það þrátt fyrir þá staðreynd að gulur hundur fylgdi mér fast eftir og stökk ævinlega á sama stein og ég stóð á þannig að lítið pláss var til dansæfinga á glerhálu grjótinu. Ég var næstum komin yfir og farin að eygja hinn bakkann í hillingum þegar skreipur steinn skrapp undan fæti og ég hentist af stað. Fyrst sveif ég fram á við og til að forða falli fleygði ég mér aftur á bak og síðan heyrðist, splash, spladd og slett og frúin sat í ánni umflotin vatni upp í miðjar kluftir. Rassblaut og ræfilsleg stóð ég upp en það vildi til að sólin skein þannig að mér varð ekki kalt og buxurnar mínar þornuðu fljótt. Verra var með skóna því það sullaði í þeim og ógeðslegt soghljóð heyrist í hvert skipti sem ég tók skref. Engu var því líkara en að ég prumpaði í hverju spori eins og gamalhryssa á síðasta skeiði.

Helen fannst einnig tilhlýðilegt að ég deildi með ykkur lesendum mínum áhyggjum okkar systra af því að eitthvað eða einhver drukknaði í pottinum ef við skildum hann eftir fullan af vatni á kvöldin. Ég hafði mestar áhyggjur af börnunum í næsta bústað en Helen ímyndaði sér að mest hætta væri á að eitthvert hross villtist upp á pallinn og drukknaði í pottinum. Hún sá fyrir sér að við systur stæðum blóðugar upp fyrir haus á sláturvelli við að gera að hrossinu þegar Magga systir kæmi í heimsókn daginn eftir og við hjálpuðumst að við að setja saman markaðssetningarprógramm til að sannfæra Möggu og fjölskyldu um að óhætt væri að éta hrossið. Við ætluðum að bjóða upp á folaldalundir og hrossatébeinsteik. En undarlegt nokk þá kunnu hestar að forðast keldur og tóku á sig krók framhjá pallinum þannig að aldrei reyndi á getu okkar sem auglýsingamanna.