föstudagur, maí 05, 2006

Litagleði og bústnir kroppar

Mikið óskaplega finnst mér sorglegt hvað við konur þurfum langan tíma til að komast yfir alls konar útlitskomplexa. Núna finnst óskaplega gaman að klæðast björtum og fallegum litum og vera í aðsniðnum fötum. Þegar ég var ung og grönn hræddist ég litina og reyndi eftir fremsta megni að falla í fjöldann í Álafossúlpu, svörtum flauelsbuxum og víðum bolum í einhverjum lítt áberandi lit. Þessa dagana er maginn bústin kúla, lærin tvöföld á við það sem áður var og konan öll þéttvaxin en hikar ekki við að rífa sig í heiðgula boli, rauðar buxur og grænan jakka. Mér finnst þetta æðislegt og er himinlifandi kát þegar allar búðir fyllast af litríkum sumarfötum. Sennilega hefði það ekki sært fólk jafnmikið í augu ef ég hefði gengið svona til fara meðan ég var yngri og grennri en skítt með það. Ég vildi bara óska að ég hefði fyrr fengið kjarkinn til að klæðast því sem mig langar að vera í. Og fyrst verið er að tala um föt þá skrapp ég inn í Ilse Jacobsen á Garðatorgi um daginn og sá svo hryllilega sæta skó að ég bókstaflega varð að kaupa þá. Ég var tólfþúsund krónum fátækari þegar ég gekk út úr búðinni en mér finnst ekki hægt að ætlast til að nokkur kona standist slíka freistingu. Við konur erum jú, einu sinni bara mannlegar. Skórnir eru rauðrósóttir með rauðum leðurborðum og lítilli rauðri slaufu ofan á táberginu og opnir í tána. Jeminn eini þeir eru bókstaflega hryllileg krútt.