föstudagur, apríl 08, 2005

Hrafnaþing kolsvart í holti

Við Freyja rifum okkur upp klukkan sjö í morgun og fórum í göngutúr. Við hittum tvo hrafna í Kópavogsdalnum sem kölluðust á yfir göngustíginn. Annar sat upp á ljósastaur en hinn í tré. Það var alveg eins og þeir væru að segja: „Hann er sperrtur þessi hundur. Er ekki best að stríða honum svolítið?“ „Jú, kæri bróðir, það væri sannnarlega vel til fundið.“ Síðan flugu þeir af stað og létu sig svífa niður að tíkinni minni sem gelti og stökk upp í loftið. Hrafnarnir hófu sig auðveldlega upp aftur og settust aftur á sömu staði nema nú höfðu þeir haft sætaskipti. Þennan leik léku þeir þrisvar sinnum en Freyja ræfillinn var gersamlega að trompast. Mér var hins vegar óneitanlega skemmt þótt ég vorkenndi tíkinni. Í gamla daga töldu menn að hrafnar væru fuglar kölska og hefðu kolsvarta sál. Ekki veit ég nú hvort innrætið er það slæmt en stríðnir eru þeir. Þetta hrafnaþing sem hundurinn reyndi mikið að taka þátt í var hins vegar haldið í dal en ekki í holti líkt og þingið sem skáldið kvað um forðum.