Rati í rötun
Í gærkvöldi fór ég í fyrsta tímann minn í kortalestri og rötun. Nú býst ég við að fjölskylda mín flissi ógurlega en hún veit að varla er til óratvísari og áttavilltari manneskja í heiminum en ég. Til marks um það er sagan af g0nguferð okkar Gumma heim á hótel í Glasgow forðum. Við höfðum nýlokið við að borða eftir langt labb um borgina allan daginn. Ég vildi taka leigubíl heim á hótel en Gummi þverneitaði. Sagðist ekki taka leigubíl þessa örstuttu vegalengd. Hann benti mér á að þetta væri aðeins tíu mínútna gangur. Ég samþykkti þá að labba í tíu mínútur en ekki sekúndu umfram það. Að tíu mínútum liðnum myndi ég taka leigubíl. Við gengum síðan af stað og líkt og mín er von og vísa stóð ég við stóru orðin og fylgdist vel með klukkunni. Þegar tíu mínútur voru liðnar sagði ég sigri hrósandi: „Hah, það eru liðnar tíu mínútur og hótelið ekki í augsýn. Nú tek ég leigubíl.“ Að því sögðu vatt ég mér yfir götuna að og inn í leigubíl sem þar stóð. Síðan bað ég bílstjórann á minni bestu Oxfordensku að keyra mig heim á hótel. Hann þagði litla stund en sagði svo: „Ég get svo sem keyrt þig en hótelið er þarna hinum megin.“ Og benti með vísifingri á bygginguna sem ég hafði staðið fyrir framan þegar ég tók strikið yfir götuna. Þar stóð Guðmundur Bárðarson og engdist sundur og saman af hlátri meðan ég hálfrislág og skömmustuleg fór út úr bílnum og sömu leið og ég kom til hans aftur. Þetta er ein af þeim stundum í samlífi okkar hjóna sem mig hefur langað reglulega mikið að berja manninn minn. Anna og Hörður hjálpuðu mér hins vegar í gærkvöldi en ég var auðvitað eins og rati að reyna að lesa úr hæðarlínum, enda vissi ég ekki einu sinni að þær væru til hvað þá hvernig þær virka á korti.