fimmtudagur, janúar 19, 2006

Rati í rötun

Í gærkvöldi fór ég í fyrsta tímann minn í kortalestri og rötun. Nú býst ég við að fjölskylda mín flissi ógurlega en hún veit að varla er til óratvísari og áttavilltari manneskja í heiminum en ég. Til marks um það er sagan af g0nguferð okkar Gumma heim á hótel í Glasgow forðum. Við höfðum nýlokið við að borða eftir langt labb um borgina allan daginn. Ég vildi taka leigubíl heim á hótel en Gummi þverneitaði. Sagðist ekki taka leigubíl þessa örstuttu vegalengd. Hann benti mér á að þetta væri aðeins tíu mínútna gangur. Ég samþykkti þá að labba í tíu mínútur en ekki sekúndu umfram það. Að tíu mínútum liðnum myndi ég taka leigubíl. Við gengum síðan af stað og líkt og mín er von og vísa stóð ég við stóru orðin og fylgdist vel með klukkunni. Þegar tíu mínútur voru liðnar sagði ég sigri hrósandi: „Hah, það eru liðnar tíu mínútur og hótelið ekki í augsýn. Nú tek ég leigubíl.“ Að því sögðu vatt ég mér yfir götuna að og inn í leigubíl sem þar stóð. Síðan bað ég bílstjórann á minni bestu Oxfordensku að keyra mig heim á hótel. Hann þagði litla stund en sagði svo: „Ég get svo sem keyrt þig en hótelið er þarna hinum megin.“ Og benti með vísifingri á bygginguna sem ég hafði staðið fyrir framan þegar ég tók strikið yfir götuna. Þar stóð Guðmundur Bárðarson og engdist sundur og saman af hlátri meðan ég hálfrislág og skömmustuleg fór út úr bílnum og sömu leið og ég kom til hans aftur. Þetta er ein af þeim stundum í samlífi okkar hjóna sem mig hefur langað reglulega mikið að berja manninn minn. Anna og Hörður hjálpuðu mér hins vegar í gærkvöldi en ég var auðvitað eins og rati að reyna að lesa úr hæðarlínum, enda vissi ég ekki einu sinni að þær væru til hvað þá hvernig þær virka á korti.

Evan er klárust kerlinga

Evan mín var kynnir í Salnum í gærkvöldi. Þar fór fram Demó sem er söngvakeppni Versló. Hún stóð sig reglulega vel þrátt fyrir fremur slakan undirbúning þeirra sem sáu um þessa skemmtun og báðu hana að kynna. Þannig var nefnilega mál með vexti að þegar söngvararnir höfðu skilað sínu kom einn þeirra sem hafði skipulagt þetta til hennar og sagði henni að hún og strákurinn sem var með henni yrðu að vera inni á sviðinu á meðan dómararnir gerðu upp hug sinn. Þau þurftu sem sagt að spinna upp 15-20 mínútna dagskrá þarna á staðnum og sú litla fór létt með það. Þetta er ekki dóttir móður sinnar fyrir ekki neitt.

Dettur, byltur og skakkaföll

Enginn virðist vorkenna mér nokkurn skapaðan hlut að þurfa að klofa snjóinn í gönguferðum með hundinn. Mér er sagt að því betur kunni ég að meta góðærið þá sjaldan sem það kemur því verr sem ég hef það þess á milli. Í morgun var bærilegra að ganga þótt það væri hált en ég er reglulega vel útbúin í hálkunni þökk sé Gumma sem gaf mér mannbrodda fyrir jólin. Freyja tekur það ekki nærri sér þótt hún renni á rassinn tíu til tuttugu sinnum í hverri gönguferð. Hún stendur bara upp, hristir sig og heldur áfram. Af og til lítur hún svo við og horfir á mig svona eins og hún vilji segja: „Heyrðirðu dynkinn þegar ég datt, mamma?“ Og ég svara auðvitað: „Þetta var flottur skellur hjá þér Freyja mín.“ Þá er tíkin ánægð og skokkar léttilega fram að næstu byltu.