fimmtudagur, júní 15, 2006

Undir verndarvæng

Það er óskaplega gaman að labba meðfram sjónum þessa dagana. Um allt eru æðarkollur með ungana sína og þessir litlu hnoðrar gleðja mann ósegjanlega. Við Freyja gengum út í Kópavogshöfn á mánudaginn og sáum þá tvær kollur liggja á steini í fjöruborðinu. Þær voru ósköp makindalegar þar sem þær lágu en þegar við nálguðumst stóðu þær upp og stungu sér í sjóinn. Þá komu í ljós undan vængjum þeirra sex litlir ungar sem stukku á eftir mæðrum sínum. Við höfðum ekki gengið nema lítinn spotta þegar við sáum kollu koma úr kafi. Á eftir henni upp á yfirborðið kom hver hnoðrinn af öðrum. Blúbb, blúbb og alltaf birtist enn einn grábrúnn haus upp úr sjónum. Áður en yfir lauk voru tólf litlir ungar á sundi í kringum kolluna en síðust af öllum stakk önnur kolla upp hausnum og hersingin synti síðan galvösk í burtu.