Hið íslenska þúfnagöngulag
Við hjónin brugðum okkur í gönguferð með tíkina áðan. Við gengum um Búrfellsgjá, upp að gígnum og hring um hann. Útsýnið var reglulega fallegt þrátt fyrir súld og skúri. Í bakaleiðinni leiddi Guðmundur gönguna og kaus að sjálfsögðu frekar að klofa yfir kargaþýfða móa í stað þess að fara eftir stígnum á botni gjárinnar. Á þessari leið skildi ég hvers vegna forfeður okkar þóttu hafa einkennilegt göngulag. Sumir útlendingar lýstu því sem svo að þeir vögguðu örlítið og lyftu fótunum hátt í hverju spori. Göngulagið hefur auðvitað mótast í þýfðum móum og má því með sanni kalla þennan sérkennilega fótaburð hið íslenska þúfnagöngulag.