fimmtudagur, janúar 27, 2005

Enn ein af mínum ævintýralegu gönguferðum

Í gær vildi þannig til að Gummi þurfti að keyra Evu á leikæfingu klukkan fimm. Því lá fyrir að hann yrði seinn til að sækja mig upp á Höfða. Veður var hið besta í höfuðborginni og ég afréð að ganga af stað heim og hitta manninn minn einhvers staðar á leiðinni. Ég arkaði sem leið lá upp að Árbæjarsafni. Þegar þangað kom minntist ég þess að hafa einhvern tíma tekið þátt í göngu gegnum safnið niður í Elliðaárdal að skoða draugaslóðir. Ég vatt mér því inn fyrir hliðið og gekk rösklega í átt að árniðnum. Neðst í brekkunni varð ljóst að safnið er vandlega afgirt með ríflega mannhæðarhárri girðingu sem hvergi virtist nokkurt gat á. Ég gaf mig þó ekki og gekk meðfram girðingunní, óð mýrarfláka upp að hnjám og sökk þess á milli í drullusvað blautra göngustíga. Eftir ríflega tveggja kílómetra göngu sá ég hlið og stökk þangað. Auðvitað reyndist það læst en þegar þarna var komið sögu var ég orðin rennandi blaut í fæturna og ergileg. Meðfædd glæpahneigð mín kom mér til hjálpar og ég klifraði upp á hliðið og stökk niður hinum megin. Ég var ekki lítið ánægð með sjálfa mig allt þar til ég uppgötvaði að um Elliðaárdalinn var gersamlega ófært sökum hálku. Ég rann niður síðustu brekkuna, fetaði mig á hraða snigilsins eftir glerhálum göngustígum út í hólmann og yfir á hinn bakkann þar sem Guðmundur beið í bílnum. Ljóst er eftir þetta ævintýri að skórnir mínir munu líklega aldrei fá hrós fyrir útlitsfegurð framar, fætur mínir munu þurfa dálaglegt skrúbb til að ná af þeim svarta litnum sem þeir tóku úr skónum og næstu vikur mun ég lifa í ótta um að fá heimsókn frá lögreglunni vegna þess að lipurlegt klifur mitt á girðingunni við Árbæjarsafn kann að hafa verið tekið upp af öryggismyndavél.