Hvað felst í skrautlegum ferli?
Oft er sagt um fólk og því lagt það út á versta veg að það eigi að baki skrautlegan feril. Ég var að hugsa um þetta orðatiltæki um daginn og það rann upp fyrir mér að ég á að baki mjög skrautlegan feril á fleiri en einu sviði. Á menntaskóla árunum vildi ég verða leikkona og lagði hart að mér til að svo mætti verða. Ég lék nefnilega í tveimur leiksýningum og í annarri lék ég asna en hinni hóru. Eiginlega má segja að ég hafi átt jafn skrautlegan leikferil og maðurinn sem hafði einu sinni stigið á svið og lék þá lík. Sjálfur sagði hann að haft hefði verið á orði í sveitinni að aldrei hefði sést dauðara lík í nokkru leikverki. Ég sneri mér eitt sumar að hótelstörfum og var treyst fyrir því verki að hræra skyr ofan í 4o ferðamenn. Ég ákvað að sykra skyrið vel til að hlífa viðkvæmum bragðlaukum óvanra Þjóðverja við sýrubragðinu en þegar skyrið batnði ekki heldur versnaði við sykurinn kallaði ég á kokkinn. Þá kom í ljós að ég hafði saltað skyrið en ekki sykrað. Þessu var bjargað fyrir horn en ég hætti við að gerast hótelstýra á stóru glæsihóteli í miðborginni. Næst sneri ég mér að bankastörfum og þar tókst mér að fylla reiknivél með því að hella yfir hana sérrístaupi. Mér er sagt að reiknivélin hafi ekki borið sitt barr síðan. Sennilega hefði verið vitlegra að senda hana á Vog fremur en á viðgerðarverkstæði. Blaðamennskan tók við af bankanum og hana er ég viðloðandi enn. Maður veit þó ekki hve lengi ef haft er í huga að ég sýndi þónokkur tilþrif á súlunni um daginn og í hádeginu í gær spurði ég yfirmann minn hvort hann væri afi ungrar dóttur sinnar.