þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Hvað felst í skrautlegum ferli?

Oft er sagt um fólk og því lagt það út á versta veg að það eigi að baki skrautlegan feril. Ég var að hugsa um þetta orðatiltæki um daginn og það rann upp fyrir mér að ég á að baki mjög skrautlegan feril á fleiri en einu sviði. Á menntaskóla árunum vildi ég verða leikkona og lagði hart að mér til að svo mætti verða. Ég lék nefnilega í tveimur leiksýningum og í annarri lék ég asna en hinni hóru. Eiginlega má segja að ég hafi átt jafn skrautlegan leikferil og maðurinn sem hafði einu sinni stigið á svið og lék þá lík. Sjálfur sagði hann að haft hefði verið á orði í sveitinni að aldrei hefði sést dauðara lík í nokkru leikverki. Ég sneri mér eitt sumar að hótelstörfum og var treyst fyrir því verki að hræra skyr ofan í 4o ferðamenn. Ég ákvað að sykra skyrið vel til að hlífa viðkvæmum bragðlaukum óvanra Þjóðverja við sýrubragðinu en þegar skyrið batnði ekki heldur versnaði við sykurinn kallaði ég á kokkinn. Þá kom í ljós að ég hafði saltað skyrið en ekki sykrað. Þessu var bjargað fyrir horn en ég hætti við að gerast hótelstýra á stóru glæsihóteli í miðborginni. Næst sneri ég mér að bankastörfum og þar tókst mér að fylla reiknivél með því að hella yfir hana sérrístaupi. Mér er sagt að reiknivélin hafi ekki borið sitt barr síðan. Sennilega hefði verið vitlegra að senda hana á Vog fremur en á viðgerðarverkstæði. Blaðamennskan tók við af bankanum og hana er ég viðloðandi enn. Maður veit þó ekki hve lengi ef haft er í huga að ég sýndi þónokkur tilþrif á súlunni um daginn og í hádeginu í gær spurði ég yfirmann minn hvort hann væri afi ungrar dóttur sinnar.

Svona eiga kennarar að vera

Á mbl.is er frétt þess efnis að Mary Letourneau, kennslukonan sem vann sér það helst til frægðar að sofa hjá fimmtán ára nemanda sínum og vera dæmd í fangelsi fyrir vikið, ætlar að giftast nemanda sínum Vili Fualaau. Þau skötuhjúin hafa haldið sambandinu heitu þau sjö ár sem Mary sat í fangelsi og eignast annað barn á því tímabili en Mary var ófrísk þegar dómurinn féll. Það er eiginlega ekki hægt að verjast þeirri hugsun að kona þessi hljóti að vera kennari af guðs náð. Hún tekur starf sitt svo alvarlega að hún kennir ekki eingöngu lestur, skrift og reikning heldur allt um ástina líka. Fimmtán ára drengur fær að kynnast kynlífi, tryggð og ást sem stenst allar raunir með hennar hjálp og það áður en hann nær að verða hálfþrítugur. Lífsreynsla sú sem drengurinn býr að hlýtur að vera einsdæmi. Já, við þyrftum endilega fleiri svona konur. En áður en af því verður, mikið er ég nú fegin að drengurinn minn er skriðinn upp úr grunnskólanum.