föstudagur, ágúst 04, 2006

Fín bústaðaferð en heima er best

Undanfarna viku höfum við systur, Helen og ég dvalið í sumarbústað Blaðamannafélags Íslands í Brekkuskógi. Ég kom heim í kvöld því það var mígandi rigning og við Helen nenntum ekki að vakna snemma til að taka til. Freyja var voðalega glöð að koma heim og Týra fagnaði henni með því að nudda sér upp við nefið á henni. Þetta var góður tími. Við lásum mikið, sváfum mikið, átum mikið og spiluðum mikið Scrabble. Halla kom í heimsókn og Magga, Steini og Aron líka. Við Freyja fórum í einn göngutúr á hverjum degi í svona klukkutíma eða einn og hálfan. Ég var lengi að finna aftur tjarnirnar sem við Gummi gengum að þegar við vorum þarna. Það er búið að búa til nýja vegi og vegarspotta þarna um allt, enda búið að skipuleggja nýjar sumarbústaðalóðir þarna fyrir ofan. Þetta ruglaði mig og ég valdi alltaf vitlausa vegarslóða og endað þess vegna einhvers staðar langt fyrir ofan eða langt fyrir neðan tjarnirnar. En loksins fundum við þær. Freyja rakst þar líka á nokkrar kindur og ákvað að sjálfsögðu að heilsa upp á þessi skyldmenni sín.
Við erum nú einu sinni fjarskyldir ættingjar, sagði hún. Þetta eru spendýr eins og ég.
Kindurnar voru ekki jafnhrifnar af ættrækni hundsins. Ein tvílemba snerist gegn henni. Kumraði lágt og illilega þegar tíkin kom að henni og stappaði niður framfætinum. Meira þurfti fröken Freyja ekki og hún bakkaði fljótt. Gelti nokkrum sinnum frekar máttleysislega en flýði svo til mín. Nokkrara endur fengu hins vegar að kenna á því og sömuleiðis rjúpnahópur sem hún rakst á. Hún hljóp og hljóp á eftir fuglunum og ég hélt að hún ætlaði aldrei að gefast upp. Hún lét hvorki mýrlendi hé kjarr stoppa sig þannig að það var frekar óhrjálegur hundur sem skilaði sér heim í bústaðinn aftur.