miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Báknið er komið til að vera

Tóta samstarfskona mín hefur undanfarnar vikur verið að bíða eftir að fá afgreiðslu hjá íbúðalánasjóði. Henni var sagt að tala við Hrafnhildi hjá Landsbankanum vegna þess en illa hefur gengið að ná í Hrafnhildi. Búið er að skilja eftir ótal skilaboð en Hrafnhildur svarar þeim ekki og hún er aldrei við. Í dag kom loks í ljós að Hrafnhildur er hætt að vinna hjá bankanum fyrir þó nokkru síðan en símastúlkurnar vísa enn á hana, gefa símann til hennar og taka niður skilaboð þegar hún reynist ekki við. Þetta minnir óneitanlega á hinn fræga umboðsmann stúdenta í rómönskum löndum LÍN. Hann var aldrei við en taskan hans var þarna svo maðurinn hlaut að vera rétt ókominn. Úa sem vann með mér í BÍ eitt sumar reyndi allt sumarið að ná í hann ásamt fleiri félögum. Um haustið kom í ljós að þokkapilturinn sá rak fasteignasölu í bænum en kom stundvíslega kl. 9 hvern morgun með töskuna sína inn á skrifstofur LÍN. Taskan stóð síðan vaktina fyrir manninn allan daginn meðan hann seldi fasteignir. Fyrir hönd töskunnar hirti hann laun og þótt honum væri umsvifalaust sagt upp þegar athæfið komst upp veit enginn hversu lengi taskan hafði í raun verið starfsmaður LÍN. Sjálfstæðismenn boðuðu einhvern tímann að báknið skyldi burt og áttu við skrifræðið. Ég held að báknið sé komið til að vera þrátt fyrir viðleitni eða kannski einmitt fyrir viðleitni sjálfstæðismanna.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þetta að fjölga störfum á landsbyggðinni hefur stundum farið út í algjörar öfgar. Símastúlkurnar hjá Íbúðalánasjóði í Reykjavík misstu vinnuna þegar símsvörunin fyrir Sjóðinn fór til Sauðárkróks. Þegar ég spurði símastúlku þar, hvort hún sæi kannski Gylfa yfir þilið, sagðist hún ekki vera með svo langan háls ... þannig komst ég að þessu. Gylfi karlinn var í fríi en hún reyndi samt að gefa mér samband við hann.
Einhver sagði mér svo að vegabréf landsmanna væru búin til á Patreksfirði.
Fínt að hafa vinnu úti á landi en það á ekki að vera á kostnað starfa eða þjónustu í Reykjavík, höfuðborg allra landsmanna. Nú verður sífellt erfiðara fyrir landsbyggðarfólk sem kemur í bæinn til að sinna öllum erindum sínum á sama stað. Guði sé lof og dýrð fyrir Netið og símann, já, og súkkulaði.

3:50 e.h.  
Blogger Svava said...

Það besta við að flytja störf út á land er að fyrirtækin sem verið er að flytja þurfa samt að senda sína starfsmenn á námskeið og fundi til Reykjavíkur. Kostar mun meira og er óhagkvæmt fyrir alla. Enda til þess er byggðastefnan ætluð. Eina huggunin er eins og þú segir, súkkulaði og aftur súkkulaði.

11:41 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home