Vindbarin fjöll
Hingað til hef ég alltaf talið að ég væri sá helmingurinn í þessu sambandi sem léti hvatvísina ráða oftar en hollt gæti talist. Eftir daginn í dag er ég hins vegar alvarlega farin að velta fyrir mér hvort maðurinn minn þurfi ekki að sigrast á fljótfærninni líka. Við ákváðum sem sé að fara í góðan göngutúr með tíkina eftir hádegið. Gummi bað um uppástungur og fékk nokkrar sakleysislegar hugmyndir, allar, nota bene, tengdar léttum láglendisleiðum. Hann ók sem leið lá upp að Grindaskörðum og stakk upp á að við brygðum okkur þangað upp. Það varð ljóst fljótlega eftir að við yfirgáfum bílinn að þarna var varla stætt fyrir roki. Hinir öldruðu þrjóskuhundar gáfust ekki upp heldur börðust á móti vindinum alla leið upp í skörðin. Þetta var einna líkast því að ganga með tuttugu kílóa pakka beint framan á sér. Af og til stoppuðum við og öskruðum hvort á annað að þetta yrði nú léttara á leiðinni niður, enda vindurinn þá í bakið. Ég þarf áreiðanlega ekki að segja skynsömum lesendum að niðurleiðin var þrisvar sinnum verri. Tvisvar tókst ég á loft og hljóp niður grýttar brekkur án þess að geta stoppað mig. Í fyrsta sinn á ævinni þakkaði ég mínum sæla fyrir að vera engin léttavara. Ef svo hefði verið sæti ég ekki hér. Vindurinn gnauðaði í eyrum okkar og tárin láku úr augunum. Hárið á mér slóst svo hraustlega í andlitið á mér að það var eins og að fá svipuhögg. Freyja var eini göngugarpurinn sem naut lífsins og virtist ekki finna fyrir neinu en meira að segja hún fauk af stað í verstu hviðunum. Við lifðum öll og það tók mig hálftíma og ómældan sársauka að greiða niður úr hárinu á mér eftir þennan ofurblástur.
2 Comments:
Skilurðu núna hvers vegna venjulegt fólk situr heima á laugardögum og horfir á Glæstar vonir? Vindhviður lífsins í bland við rok framhjáhalds og rústaðra vona belja á augum okkar. Það er mun auðveldara að tárast þannig og lítil hætta á að við fjúkum upp úr sófanum ...
En ... þú ert dugleg stelpa.
Takk fyrir síðast! Algjört æði :)
Hárið á mér er það mikið fiður að minnsti gustur fær það til að breytast í eitthvað sem minnir á gaddavírsflækju. Ég er því fegin því að ég var ekki með í fjallaferðinni góðu. Hinsvegar hefði ég gjarnan vilja eiga myndband af minni ástkæru systur þegar hún var á flugi í fjallshlíðinni. Talk about a Kodak moment !
Skrifa ummæli
<< Home