Líkur sækir líkan heim
Aumingja Guðmundur hefur oft fengið að kenna á því að heita svona algengu nafni en um daginn rifjaðist upp fyrir mér sagan af klikkuðu kerlingunni sem ofsótti okkur og það hafði ekkert með nafnið hans að gera. Af einhverjum ástæðum var hún fullviss um að einhver Elliði Nordahl væri með þetta símanúmer og hringdi jafnt nótt sem nýtan dag. Við vorum orðin ansi þreytt á kerlu en hún var mismunandi illa drukkin en alltaf sannfærð um að ég feldi Elliða í skápum og skúffum íbúðarinnar og stæði í vegi fyrir að hún fengi að segja honum skoðanir sínar á líferni hans. Eitt sinn hringdi hún og hvæsti svo hátt að heyrðist norður á Sauðárkrók: „Er helvítis fávitinn heima?“ Ég var dauðsyfjuð og rétti því Guðmundi símann orðalaust. Hann skiptist á nokkrum orðum við kerlu sem skildi fljótt að þrátt fyrir að vera stundum tvöfaldur í roðinu þá var Gummi ekki Elliði. Þegar hann hafði lagt á sagði hann sármóðgaður: „Það er spurt um helvítis fávitann og þú réttir mér símann!“ Það varð fátt um svör hjá mér en ætli það nægi ekki að minna á að líkur sækir líkan heim.
2 Comments:
Kerlingin hlýtur að vera skyld stúlkunni sem hringdi stöðugt í mig eina nóttina og neitaði að trúa því að ég væri ekki Björg vinkona hennar og fannst ég verulega fúl að vilja ekki tala við hana. Í síðasta símtalinu sagði hún við mig: Þetta er ekkert fyndið Björg. Jú, þetta er eiginlega orðið fyndið sagði ég, að þú skulir ekki geta skilið að ég er ekki Björg. Hún hringdi ekki aftur eftir það, ég dauðvorkenni hinsvegar Björgu að vera vinkona þessa hálfvita.
Maður skyldi aldrei færa Björgu í bú...
Sumum eru allar Bjargir bannaðar ...
Ef einhver hringdi í mig og spyrðu um helvítis fávitann, eða hvað þetta nú var, myndi ég að sjálfsögðu rétta eiginmanni mínum (ef ég ætti) símann. Ekki fengi kötturinn hann og sjálfstraust mitt er það mikið að ég veit að enginn myndi hringja og spyrja um mig undir þessu uppnefni.
Hmmmmm.
Skrifa ummæli
<< Home