þriðjudagur, júlí 26, 2005

Fótafúin hjón heimt heim af Hornströndum

Þau voru fótafúin gömlu hjónin sem stauluðust inn um dyrnar hér í Neðstutröðinni í gærkvöld. Freyja fagnaði þessum göngulúnu ferðalöngum ákaft og sömuleiðis Matti en þau voru einu lífverurnar sem glöddust við að mæta þeim. Svitalyktina lagði af okkur báðum og hárið var stíft af flugum, svita og ferðaryki. Guðmundur var með myndarlegan hanakamb beint upp úr miðju enni sem ekki var nokkur leið að slétta úr en það verður víst að viðurkennast að hárið á honum hefur ævinlega sýnt mjög mikla tilburði til sjálfstæðis og aldrei farið eftir þeim reglum sem eigandi þess reynir að setja.

Við vorum sem sagt í fimm daga ferð á Hornstrandir þar sem gengið var á alla helstu tinda í nágrenni Hornvíkur og náttúrufar þessa svæðis skoðað. Ferðin var dásamleg. Ekkert hefði getað undirbúið mig undir þá ægifegurð sem mætti mér á Ströndum né heldur hin hrikalegu vestfirsku fjöll. Sunnlensk fjöll verða ávalar vinalegar þúfur í samburðinum. Eggslétt hamrabelti tugi og hundruð metra há og göngustígar sem hanga utan í snarbröttum hlíðum eru reglan en ekki undantekningin þar um slóðir. Víða eru mjó einstígi utan í klettaveggjum eina leiðin til að komast milli staða og eins gott að menn treysti fótfimi sinni við slíkar aðstæður. Ég gerði það ekki alltaf og gafst því upp af og til og fór auðveldari leiðir. Ég naut ferðarinnar engu að síður. Þegar haft er í huga að ég fór um að sumarlagi í sólskini og blíðuveðri en forfeður okkar bjuggu á þessum stað og ferðuðust um jafnt á sumri sem vetri. Ég get aðeins reynt að gera mér í hugarlund hvernig það er að feta ávalt fjörgrjótið þegar það er þakið ísingu á vetrum eða klífa upp í fjallaskörðin í snjó og hálku. Sennilega hefur oft mátt litlu muna og kannski bara kraftaverk að ekki fórust fleiri í þess háttar háskaspili.

Við tjaldstæðið bjuggu fjórir refir og gerðu sig mjög heimakomna við tjaldbúa sem flestir fóðruðu þá miskunnarlaust. Á fjöllunum mættum við líka tófum á ferð og ein þeirra gaggaði frekjulega á mig og var ábyggilega að skamma mig fyrir eitthvað. Því miður skildi ég ekki alveg hvað það var sem hún vildi að ég gerði betur en kannski verð ég betur að mér í máli innfæddra næst þegar ég kem á Strandirnar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home