Sögur og sagnir af Ströndum
Ég má til að segja fleira af ferðinni vestur. Við lögðum upp á fimmtudag og ég hafði aldrei komið vestar en að Brjánslæk. Það var því mikið ævintýri að keyra um litlu firðina í Djúpinu og koma á Súðavík og Ísafjörð. Hvorutveggja eru vinalegir bæir og ef maður vissi ekki um slysið í Súðavík væri engin leið að ímynda sér að í þessu friðsæla þorpi hefðu viðlíka ógnaratburðir gerst. Íbúar Ísafjarðar voru upp til hópa vingjarnlegir ef undan er skilin kona sem átti bátinn sem við fórum í. Þegar við komum á bryggjuna og byrjuðum að hlaða farangrinum á hana vék hún sér að okkur með miklum þjósti og hneykslun og spurði hvort farangurinn væri ekki merktur. Árný kvaðst hafa fengið þær upplýsingar að ekki væri nauðsynlegt að merkja farangur því aðeins væri einn áfangastaður í Hornvík. Konan náði vart upp á nef sér vegna þessa og uppþot hennar varð þess valdandi að göfug kona úr hópi Förusveina lánaði okkur límband og merkipenna og við merktum hvern einasta poka, böggul, bakpoka og kassa. Sonur konunnar kom og bætti um betur með því að tilkynna að þeir sem ekki merktu farangur sinn skorti nokkuð á almenna skynsemi. Þá var mér nú nóg boðið og ég sagði að mér fyndist óþarft að tala svona til fólks. Þeirri athugasemd var ekki sérlega vel tekið.
Allt þetta jafnaði sig í bátnum þegar við sáum fegurð fjallanna og spegilsléttur sjórinn merlaði í kvöldsólinni. Lætin í konunni urðu hins vegar nokkuð skondin þegar til Hornvíkur var komið og upp úr dúrnum kom að aðeins um einn áfangastað var að ræða og farþegar tóku sjálfir þátt í uppskipun og fermingu skipsins. Eina leiðin til að týna farangri er því í raun sú að glopra honum í sjóinn. Það sem eftir lifði kvölds fór svo í að velja tjaldstæði, tjalda og njóta fegurðarinnar.
Ég svaf illa fyrstu nóttina og var því nokkuð illa undir gönguna búin en fór samt upp í rúmlega 400 metra hæð án þess að blikna. Flóran er hreint dásamleg þarna, ég sá baunagras, klukkublóm, þúfusteinbrjót, mosasteinbrjót, mosajafna, skollafingur, skollaber, litunarjafna og ótal aðrar tegundir. Skollaber hafði ég aldrei séð áður, enda jurt sem vex aðeins á fáum stöðum á landinu. Daginn eftir sáum við jöklasóley í Atlaskarði og Gummi tók mynd af fyrir mig. Þetta var líka í fyrsta sinn sem ég rekst á þá jurt.
Næstu nótt svaf ég vel, enda klæddi ég mig í nánast allar þær flíkur sem ég var með. Gangan gekk því betur en ég skoraðist undan að fara inn í Hvannadali þar sem leiðin liggur um einstigi utan í háum klettum og menn hanga í reipi sem þar er til að verjast falli. Það var meira en lofthræðslan þoldi og Gummi ákvað að fylgja prinsipissunni sinni til að henni leiddist ekki. Þetta var indæll og góður dagur en um kvöldið grilluðum við læri og skemmtum okkur konunglega fram eftir kvöldi.
Næsta dag var gengið út að Hornkletti og upp á Horn. Ég fór ekki alla leið fram á brún af sömu ástæðum og ég vildi ekki ganga einstigið og eins fórum við ekki á Miðfell. Það er snarbratt fell sem er svo mjótt að ofan að setjast má klofvega á brúnina. Ekki alveg minn tebolli eins og Bretar myndu segja. Enn var 20°C hiti og sólskin. Við gengum ströndina til baka og sandurinn var volgur í sólskininu. Kýráin var einnig volg við ósinn og hrein nautn fyrir þreytubólgna fætur að vaða þar yfir.
Síðasta daginn vöknuðum við um sex til að taka saman dótið og koma því í bátinn. Það voru heldur þreyttir og framlágir ferðalangar sem skriðu um borð. Vont var í sjóinn og margir urðu sjóveikir. Mér leið hræðilega en tókst að hanga uppi án þess að kasta upp alla leið til Ísafjarðar. Til að gefa smámynd af ferðinni má geta þess að ferðin í Hornvík tók rétt rúmlega tvær klst en ferðin til baka fjórar. Það voru slæptir og svangir göngumenn sem komu í Faktorshúsið á Ísafirði og fengu sér að borða. Við átum eins og langsoltnir útilegumenn og ekki laust við að maður væri farinn að skammast sín ögn áður en yfir lauk en mikið skelfing var þetta gott. Ég hefði ekki getað ímyndað mér í gær að ég ætti nokkurn tíma eftir að ganga framar en er þegar farin að ráðgera gönguferð með Freyju í kvöld. Mikið er mannslíkaminn nú yndislegt tæki.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home