Harry Potter og svínahirðirinn
Ég lauk við að lesa nýjustu Harry Potter bókina á mettíma og líður núna eins og ég hafi verið svikin um eitthvað. Ég býst við að sú tilfinning stafi fyrst og fremst af því að ég vil vita hvernig sagan endar og er öskureið yfir að þurfa að bíða í heilt ár eftir sögulokum. Það er andsk. nóg að Ríkissjónvarpið kvelji mig vikulega með því að sýna fyrri helming breskrar sakamálamyndar á þriðjudögum en seinni helminginn ekki fyrr en viku síðar. Allir sem einhvern tíma hafa horft á breska sakamálamynd vita að það er óbærilegt að bíða svo lengi eftir endinum. Hefur þetta fólk virkilega engan skilning á því hversu nauðsynlegt það er að ljúka hlutunum og ég meina ljúka þeim fullkomlega? Annars var Harry Potter reglulega skemmtilegur þó að nafnið á bókinni Harry Potter and the Half Blood Prince minni mig af einhverjum ástæðum óþægilega á Svínahirðinn eftir H.C. Andersen. Það er nánast fast í mér að bókinni heiti á íslensku Harry Potter og svínahirðirinn. Þetta er áreiðanlega eitthvað freudískt.
2 Comments:
Já, enn er ég föst í 1. kafla bókarinnar um Harry og svínahirðinn. Ekki vegna þess að bókin sé leiðinleg, heldur vegna tímaskorts og of mikils sjónvarpsgláps. Svo veit ég líka hver deyr ... takk fyrir það :) Hehehehe. Mikið er ég sammála þér með hryllinginn á RÚV á þriðjudögum. Þetta eru háklassaþættir með fullt af spennandi vísbendingum um morðingjann sem maður síðan gleymir á þessum sjö dögum sem líða á milli. Skammmm RÚV!!!
Freudískt eða ekki, allt í einu finnst mér að bókin eigi að heita Harry Potter og Lotta frænka. Er eiginlega alveg eyðilögð þess vegna. En hlakka til að lesa bókina!!
Skrifa ummæli
<< Home