föstudagur, ágúst 12, 2005

Walk a mile in my shoes

Samstarfskona mín kom hér áðan og sagði okkur frá afburðaleiðinlegri konu sem hafði komið til að skoða íbúðina hennar sem er á sölu. Mér fannst þó nokkuð til um söguna en meðan á frásögn hennar stóð rifjaðist upp fyrir mér að við Gummi fórum eitt sinn að skoða kjallaraíbúð í Hlíðunum. Þegar við vorum búin að skoða nægju okkar fylgdi húsbóndinn okkur til dyra. Gummi reif skóna sína upp frammi í forstofunni og byrjaði að reyna að troða sér í þá. Það gekk ekkert sérstaklega vel og engu líkara en að skórnir hefðu hlaupið rétt á meðan við kíktum á eldhús, stofu og bað. Ég sá að húsbóndinn varð eitthvað skrýtinn á svipinn og að lokum ræskti hann sig og spurði: „Eru þetta ekki mínir skór?“ Og viti menn, svo reyndist vera. Skórnir hans Guðmundar, alveg sömu gerðar en í aðeins stærra númeri, lágu aðeins nær dyrunum. Þegar við komum út stundi maðurinn minn eldrauður í framan: „Við gerum ekki tilboð í þessa íbúð.“ „Jú, jú,“ svaraði ég galvösk. „Þau fást kannski til að láta skóna fylgja.“

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home