Sveitarómantík í vinnunni
Ég get ekki sagt að ég þjáist af pennaleti þessa dagana þótt fátt af því sem ég skrifa rati inn á bloggið. Ég sit við í vinnunni flesta daga og skrifa og les yfir greinar. Ef ég lít upp blasir við mér óbyggt holt og hestamenn að viðra sig og dýrin sín. Hér rétt fyrir ofan er nefnilega reiðstígur og þar fara um fjöldinn allur af mönnum, hrossum og hundum á hverjum degi. Þetta er sannarlega ánægjuleg viðbót við skrifstofuna og ég þekki orðið í sjón suma hunda og hesta. Ég hef hins vegar ekkert fyrir því að stúdera reiðmennina, hvað þá að leggja útlit þeirra á minnið. Tveir kolsvartir hundar eiga alltaf leið um stíginn fyrir hádegi. Þeir hlaupa á eftir einum skjóttum hesti og einum brúnum. Annar hundurinn er alveg svartur en hinn er með hvítan blett á bringunni. Ég skírði þann svarta Kolskegg og hinn Bláskegg. Strangt til tekið er skeggið auðvitað ekki blátt en skítt með það þótt maður skreyti svolítið. Já, sól skín í heiði og haustlitirnir loga í brekkunni her fyrir framan mig. Það hlýtur að vita á gott.
4 Comments:
Ég kom öskureið inn á bloggið þitt og ætlaði að heimta fréttir af þér. Auðvitað get ég tekið upp eitt símtól en vaninn er sterkur ... að kíkja til þín alla vega einu sinni á dag á þennan stað. Gott að þú hefur fínt útsýni, það eykur bara sköpunargáfuna. Vona að þetta gangi allt rosalega vel hjá þér og að þú fyllir blaðið af frábærum greinum. Hef enga trú á öðru, snillinn minn!!!
Útsýnið hjá mér er ekki spennandi, ég sé niður eftir Skúlagötunni í átt að nýbyggingaturnunum í Skuggahverfinu. Ef ég hvessi augun sé ég grilla í Aktu-taktu. Enda horfi ég lítið út um gluggann skal ég segja þér.
Þú ert greinilega að vinna á flottum stað. Hlakka til að sjá nýja blaðið og lesa greinar eftir þig.
Hvenær kemur fyrsta blaðið út?
Sæll farfugl. Já, ég er vinna í Akralind 3 í flottu húsnæði. Blaðið mitt heitir h-tímarit og h-ið stendur fyrir hann og hún. Þetta fína blað mun koma út fyrstu vikuna í nóvember og verða dreift um höfuðborgina á öllum helstu samkomusvæðum manna þ.e. stórmörkuðum, hárgreiðslustofum, læknastofum og fleira. Svo getur þú auðvitað nálgast blaðið hjá mér ef þú vilt.
Skrifa ummæli
<< Home