föstudagur, september 08, 2006

Engin vettlingatök

Af einhverjum ástæðum þolir Freyja ekki vettlingana mína. Ég á þessa fínu, útprjónuðu vettlinga sem ég keypti í Stykkishólmi í vor. Þeir eru svartir og hvítir með fallegu vöffluprjóni á handarbakinu. Í hvert skipti sem ég dreg þá upp úr vösum mínum tryllist dýrið hins vegar og stekkur á þá urrandi og bítandi. Tíkin gerir allt hvað hún getur til að rífa vettlingana af höndum mér og ef hún nær í þá hristir hún þá tryllingslega í kjaftinum. Hingað til hefur mér tekist að bjarga vettlingunum mínum frá bráðum bana en viðsjárverð augnablik hafa verið í þeirri baráttu og stundum mátt litlu muna. Við Gummi fórum út að ganga með frk. Freyju í morgun og ég dró vettlingana góðu á hendur mér. Tíkin stökk umsvifalaust á þá og nú fékk ég nóg. Ég stoppaði og hundskammaði hana og sló hana í nefið með vettlingunum. Hún lét þá vera eftir það en af og til sendi hún þeim hatursfullt augnaráð og nokkrum sinnum tók hún hliðarspor sem bentu til að hún ætlaði að gefast upp að berjast við freistinguna en til allrar lukku hætti hún við á síðustu stundu í hvert skipti. Nú verður spennandi að sjá hvað gerist næst þegar ég dreg upp vettlingana góðu.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hún hættir ekki fyrr en hún verður búin að drepa þá!
Fín í Mogganum í dag, sæta drós! Verður þú í þessu alla helgina?

11:48 e.h.  
Blogger Steingerdur hin storskorna said...

Já, það er hætt við því Gurrí mín að tíkin gefist ekki upp fyrr en vettlingarnir liggja í valnum. Ég verð á sýningunni alla helgina og allir þeir sem áhuga hafa á fjármálum og fjölskyldunni ættu að heimsækja mig þar.

9:00 f.h.  
Blogger Svava said...

Ættir að segja hundasálfræðingi frá þessu, verðugt rannsóknarefni að athuga hvort mynstrið veki einhverja drápshvöt í hundum :-) Ég keypti mér svona mynstraða vettlinga um daginn, best að heimsækja ekki freyju með þá á sér !

12:21 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home