laugardagur, september 02, 2006

Beauty is pain

Freyja ræfillinn komst að því að beauty is pain þegar við fórum með hana á hundasnyrtistofu og létum þvo, blása og klippa feldinn hennar. Tíkin var svo ljómandi falleg á eftir að það er þegar frægt í sjö sýslum og hún hefði örugglega unnið fegurðarsamkeppni gæludýra á Ormsteiti. Hin margrómaða ljósgula tík var hins vegar á því að best væri að halda öllu í hófi svo hún hófst þegar handa við að velta sér upp úr hinu og þessu í von um að fá feldinn nokkuð venjulegan að nýju. Rn hvernig sem hún lét hélt feldurinn áfram að vera fínkembdur og íðilfagur eða allt þar til hún brá sér í gönguferð í skógræktinni í Fossvogsdal og stökk út í litla tjörn. Yfirborð tjarnarinnar var alveg tært og kyrrt svo ég átti ekki von á að þar væri neitt ljótt að finna en auðvitað reyndist leir á botninum og Freyja kom upp úr svört og leirug á fótum og kvið. Lyktin af henni var heldur ekki neitt sérlega ánægjuleg eða áhugavekjandi. Ég mátti því gjöra svo vel að þrífa dýrið allt hátt og lágt aftur og blása það með hárþurrkunni minni til að halda feldinum jafnglansandi flottum og hann hafði verið. Freyju var ekki skemmt og svipurinn á henni sagði: No beauty is worth this much pain.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Mér líður svona eins og Freyju þegar ég er neydd til að fara í klippingu á sex mánaða fresti ... orðin eins og útigangskerling ... Bið að heilsa henni.

1:00 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home