sunnudagur, ágúst 13, 2006

Ættgengur andskoti

Í gær var ég í afmæli Guðríðar Haraldsdóttur blaðamanns sem eins og allir vita er árlegur hápunktur sósíallífsins hér á landi. Þangað mætir rjómi fyrirfólksins og allir þeir sem vilja vera menn með mönnum. Að sjálfsögðu vorum við systur þar allar nema Svanhildur sem ekki á alltaf heimangengt þessa dagana sökum ómegðar. Þarna hittum við Auði Haralds rithöfund sem reyndist kunna utanbókar allar uppáhaldskökuuppskriftir sínar og gerði hún mikið grín að skorti mínum á húsmóðurhæfileikum eftir að í ljós kom að ég gat ekki haft yfir uppskriftina af eplakökunni sem ég kom með. Auði verður send uppskriftin í pósti og þetta bréf með:

Kæra Auður,

Þakka þér fyrir síðast og ljóst er að húsmóðurheiður minn hefur beðið mikla hnekki við það að kunna ekki uppskriftir af þeim kökum sem ég mæti með í veislur. Eiginlega er spurning hvort ég geti látið sjá mig opinberlega framar og ef maður slysast í framtíðinni fyrir almenningssjónir er óhjákvæmilegt að læðast niðurlútur með veggjum. Annars hef ég það mér til afbötunar að þetta er ættgengur andskoti. Langamma mín Guðlaug á Svínabökkum í Vopnafirði var þekkt fyrir að vera félagslynd og skemmtileg en fremur lítil húsmóðir. Svínabakkar voru í þjóðbraut á þessum tíma þannig að jafnan var gestkvæmt á bænum. Langamma hafði sérlega gaman af að spila og var það venja hennar að draga þá sem duttu inn úr dyrunum í félagsvist og síðan var spilað þar til menn ultu út af sofandi. Bærinn á Svínabökkum var orðin nokkuð gamall og lélegur þegar þessi saga gerðist en þá fylltist allt af gangnamönnum sem orðið höfðu veðurtepptir á leið yfir Smjörvatnsheiði. Amma dreif alla í spilamennsku eins og venjulega en þegar minnst vonum varði hrundi baðstofuloftið niður á næstu hæð. Þeirri gömlu brá ekki meira en svo að hún stóð upp úr brakinu, hristi af sér versta gromsið og sagði svo: Hver á að gefa? Þannig að þú sérð það Auður mín að mér nokkur vorkunn að vera komin af þesskonar fólki. En njóttu vel og megi eplakakan bráðna þér á tungu.

Kær kveðja,

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home