Ljúfar stundir í himnaríki en löng er leiðin heim
Við Svava skutumst upp á Akranes á föstudaginn og dvöldum í góðu yfirlæti í himnaríki hjá Gurrí. Hún reyndist hinn besti leiðsögumaður um allt það markverðasta á Skaganum og okkur hlotnaðist sá heiður að heimsækja Einarsbúð. Þessi einstaka hverfisbúð lætur lítið yfir sér utanfrá séð en þegar inn er komið reynist vítt til veggja og vöruúrval gott. Þarna fæst allt frá júgursmyrslum til sælkerafæðis og meira að segja sokkar sem ganga lengra. Við Svava skemmtum okkur konunglega við að ganga um og skoða dýrðina meðan Gurrí keypti frábæran fiskrétt sem hún fóðraði okkur systur á síðar um kvöldið. Á leiðinni heim fórum við varlega vel minnugar þess að ekki alls fyrir löngu keyrðum við framhjá afleggjaranum til Reykjavíkur og lentum heima á hlaði á bóndabæ nokkrum. Kusuhópurinn var að koma heim til kvöldmjalta og þær störðu opinmynntar og hálslangar á þessar stórskrýtnu konur og veltu fyrir sér hvort eitthvað svona furðulegt gæti verið ætt. Þetta ævintýri varð til þess að við Svava fylgjumst með veginum þegar við ökum heim frá himnaríki.
1 Comments:
Já, væri nett vandræðalegt að standa fyrir framan læsta hliðið aftur. Kýrnar myndu hlæja að okkur og bóndinn skjóta okkur
Skrifa ummæli
<< Home