Örótta konan í Kópavoginum
Nanna Rögnvaldar ritar um skort sinn á örum á blogginu sínu og meðan ég las það rann upp fyrir mér að ég er ábyggilega með öróttari manneskjum. Yfir hluta af hægri höndinni á mér er ör eftir að ég skellti straujárni ofan á hana þegar ég var á þriðja ári. Sennilega hef ég talið að hægt væri að slétta hana en aðgerðin hafði þveröfug áhrif. Við vinstri augabrúnina er ör eftir að Ari Eydal barði mig í hausinn með niðursuðudós. Ástæður þessara trakteringa eru löngu gleymdar. Á hnénu er ör eftir að hafa dottið ofan í poll en glerbrot leyndist á botninum og skarst inn í hnéð á mér. Þetta sár hefði áreiðanlega verið saumað í dag en í Bólstaðarhlíðinni í þá daga var systrum nokkrum sagt að sjúga upp í nefið og hætta þessu væli. Þær fengu ekki einu sinni plástur á svöðusár sín. Á ððru lærinu er kringlótt ör eftir sauðaklippur sem Víglundur frændi hafði vafið utan um staur í fjárhúsunum þannig að oddarnir stóðu fram. Á ökklanum er ég með ör eftir ístað þar sem hestur datt ofan á mig og það er stór hola inn í fótinn á mér. Skammt þar frá er annað kringlótt ör eftir sár sem illt hljóp í vegna þess að Helen var alltaf að kroppa hrúðrið ofan af því. Ég er með ör eftir botnlangaskurð og ótal smáör eftir bruna og skurði sem ég hef hlotið við þau hættulegu störf að undirbúa næringu ofan í fjölskyldu mína. Já, sumir eru greinilega eitthvað lagnari en aðrir að verða sér út um varanlegar minningar um lífsreynslu.
1 Comments:
Ég fór eitthvað monta mig af töff öri sem ég mun fá á hnéð og þá toppaði Nanna mig algjörlega með sögu af fína örinu sínu. Þú toppar okkur báðar og líka Manninn með örin, en svakaleg meðferð hefur þetta verið á ykkur að leyfa ykkur ekki einu sinni að fá plástur ... og þið systur svona aumingjagóðar og yndislegar þrátt fyrir það. :)
Ástarkveðjur til Andra afmælisbarns ..
Skrifa ummæli
<< Home