mánudagur, september 18, 2006

Rúnki fór í réttirnar

Við hjónin brugðum okkur í Skeiðarétt á laugardaginn og undum glöð við rollujarm og frís í hrossum. Freyju leist ekki illa á sig heldur og við og við kom smalahundurinn upp í henni. Þá missti hún stjórn á sér andartak og gelti tryllingslega í örfáar sekúndur. Ung stúlka var þarna á sveimi með tvo litla hvolpa og ég missti að sjálfsögðu gersamlega stjórn á mér. Sat undir réttarveggnum í klukkutíma með yndislegan, silkimjúkan hvolp í fanginu. Seinna kom í ljós að þessir litlu gullmolar bjuggu í Skeiðháholti þar sem fór í kjötsúpu á eftir. Ég gat varla hugsað mér að sleppa kvikindunum og kjassaði þá allan daginn. Gummi brá sér á hestbak og fylgdi kindunum frá réttunum og niður í Skeiðháholt. Ég hélt að hann stæði ekki í lappirnar eftir þetta og yrði undirlagður í harðsperrum en það var öðru nær. Þvert á móti var hann hinn kátasti. Hins vegar er hann smitaður af hestabakteríunni og þráir heitast af öllu að eignast hest. Það verður fínt að hafa hann í garðinum þá þarf ekki að hafa áhyggjur af slætti.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Og hvar á kvikindið að sofa? Kannski í eldhúsinu? Kettirnir eiga eftir að mótmæla nýju gæludýri harðlega ... en hestar eru nú algjör krútt svo sem. Já, nú hef ég snúist heilan hring. Fáið ykkur endilega eitt stykki hross, þá verður enn skemmtilegra að heimsækja ykkur. Svo kannski svín næst (ég meinti ekki Gumma) ... ohhh, ég er svo fyndin.

10:28 e.h.  
Blogger Svava said...

Hesturinn getur verið inni í bílskúr :-) Ég er í raun steinhissa á því að þér hafi tekist að komast heim án hvolpanna með í farteskinu. Ég get ekki gefið ykkur Gumma hest en ég get rekið upp hrossahlátur fyrir ykkur :D

12:32 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ ELSKU STELPAN MÍN!!! og lati bloggarinn minn ... veit að þú ert mjög bissí, ritstjóraspíran þín!
Eigðu dásamlegan afmælisdag og vonandi sendir Gummi þér rauðar rósir af sjónum. Bara með þyrlu eða eitthvað!

11:40 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home