Vor í lofti
Gummi er að skríða saman og þótt enn sem komið er fái hann kvalaköst af og til virðist hann á batavegi. Ég dreif mig til hans eftir að við Freyja höfðum gengið eftir göngustígnum við Nauthólsvík og út að Ægissíðu. Veðrið var bókstaflega magnað. Mistur og raki í lofti en loftið samt ótrúlega ferskt og hreint. Fossvogurinn og Skerjafjörðurinn rennisléttir og háflóð. Við gengum fram hjá vík þar sem hópur af stelkum og tjöldum höfðu raðað sér á sker. Svo þétt var skerið setið að í hvert sinn sem einhver frumlegur stelkur eða ofurbjartsýnn tjaldur fékk þá frábæru hugmynd að laga sig ögn til komst rót á allan hópinn. Fuglarnir görguðu og tístu og nokkrir flugu upp í örvæntingu fremur en að renna út af steininum. Eftir svolitla stund komst kyrrð á að nýju og allir höfðu fundið sinn fermillimetra en síðan endurtók sagan sig. Ég horfði á þetta í smástund og skemmti mér konunglega. Ég verð að segja að ég hef séð og upplifað svo ótrúlega margt tengt náttúrunni hér í borginni síðan ég eignaðist þennan hund. Sennilega hefði ég farið á mis við þetta allt ef hún hefði ekki dregið mig út á hverjum degi.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home