Leynigarðurinn minn
Loks varð lát á þessu dularfulla veðri sem verið hefur. Í gærkvöldi brugðum við Freyja okkur í gönguferð í vægast sagt furðulegum veðurskilyrðum. Niður við jörð og allt upp að mæni húsanna í Kópavogsdalnum hékk þykk, grá þoka svo vart varð greint lengra en fram á nefbroddinn en þegar litið var upp blasti við stjörnubjartur himinn og nánast blindfullur máni. Við urðum nokkrum sinnum að stoppa og anda að okkur þessu skrýtna andrúmslofti sem varð enn ójarðneskara þegar við fundum óvænt leynigarð inn á milli húsa. Við komum auga á gangstétt sem virtist ekki liggja eitt eða neitt. Þessi undarlega hellulögn byrjaði við lóðarmörk eins húsanna og séð frá götunni virtist hún einna helst liggja upp að næsta húsvegg. Við ákváðum að fylgja þessari slóð og vita hvert hún leiddi, og viti menn, skyndilega beygði gangstéttin upp á við og þá blasti við stór og fallegur garður með tröppum, runnum, trjám og leiktækjum. Það var alveg hreint með ólíkindum að þetta stórt rými leyndist þarna inn á milli einbýlishúsanna. Ef eingöngu hefði verið horft frá götunni hefði engum geta dottið í hug að þetta stóra leyndarmál væri að finna rétt handan við horn næsta húss. Við gengum þarna um góða stund og þegar við komum út á götuna hinum megin fannst mér eins og ég hefði stigið út úr einhverri ævintýrabók inn í raunveruleikann aftur.
1 Comments:
Þarna sannast það margsagða að
"margt býr í þokunni"
Bið að heilsa Freyju og skilaðu batakveðjum til Gumma.
Skrifa ummæli
<< Home