Margt býr í þokunni
Gummi var skorinn upp í morgun og eftir hádegi fékk ég að heyra að allt hefði gengið vel. Ég var þó ekki alveg í rónni fyrr en ég hitti hann áðan. Það hjálpaði að láta tímann líða að ganga með tíkina. Þokan var ansi þétt og ég veit núna hvers vegna forfeður okkar trúðu á drauga, forynjur og alls konar kvikindi. Úti í þykku mistrinu grillir í eitthvað sem maður veit ekki hvað er og það er ekki fyrr en komið er nær alveg að þessari dökku þúst að maður gerir sér grein fyrir hvað þetta er. Gæs á steini leit út fyrir að vera sæskrímsli að skríða upp úr sjónum þess albúið að sitja fyrir saklausu göngufólki og bíta það í hælana. Hópur af æðarfuglum syndandi á sjónum voru eins og bak á stórri, ókunnuglegri skepnu sem maraði í hálfu kafi og langdregið úið í fuglunum hefði auðveldlega getað breyst í skerandi útburðarvæl þegar það barst lengst utan úr grárri, þykkri þokunni. Alversta ófreskjan var þó Kópavogskirkja sem reis eins og risastór, hvítur hvalur með gapandi ginið upp úr holtinu. Þegar saklaust fólk gekk framhjá ljóskösturunum varp það ótótlegum skuggum á hvítan flötinn og engu var líkara en að ógeðslegar, slímugar skepnur liðu fram og aftur í kjafti Moby Dick. Já, margt býr í þokunni.
1 Comments:
Þegar ég fór af stað í baunasúpuþoku í gærmorgun flaug hrafn út úr þokunni og sveif niður að bílnum um leið og ég beygði út af stæðinu. Verð að játa að það var frekar óhuggulegt. Eins og atriði úr B-hryllingsmynd. Enda keyrði ég í vinnunna og bjóst við hinu versta á hverju götuhorni. En ekkert gerðist, svo nú er best að slaka á.
Skrifa ummæli
<< Home