Mínir skínandi persónutöfrar
Gurrí sendi mér tölvupóst áðan sem innihélt persónuleikapróf. Spurt var hvaða ávöxt maður myndi velja úr ávaxtaskál sem innihéldi banana, epli, appelsínu, ferskju og peru. Hvað yrði fyrir valinu myndi síðan segja ótrúlega margt um persónuleika þinn. Ég ákvað að sjálfsögðu að velja ferskju, enda sá ég fyrir mér að ferskjan væri exotískust þessara ávaxta og því líklegt að aðeins sérstakir snillingar veldu hana. Síðan skrollaði ég niður í blóðspreng af spenningi til að komast að því hvers konar manneskja ég eiginlega væri. Svarið var þú ert manneskja sem þykir gott að borða ferskjur. Sama svar gilti um alla hina ávextina. Það besta af öllu er hins vegar að mér þykja ferskjur ekkert sérlega góðar og hefði sennilega valið alla hina ávextina fyrr til átu en ferskjuna. Frá sjónarhorni sálfræðinnar þá myndi þetta val mitt því áreiðanlega kallast blindur metnaður á villigötum. Þannig að ávöxturinn sem ég valdi sagði því ýmislegt um mig eftir allt saman.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home