Í skriðum skemmti ég mér tralallalatrallalallala
Ég ætlaði endilega að reyna að rifja upp ferðasöguna sem hvarf. Þótt ritsnilld mín á rúmhelgum degi verði aldrei neitt sambærileg við þann fítonsanda sem var yfir mér á föstudaginn langa þá skal nú reynt að segja söguna af fjallgöngu okkar hjóna. Við lögðum upp frá Perlunni klukkan tíu á föstudagsmorgun. Við hjónin vorum ein í bíl (sennilega hefur enginn treyst sér með okkur) og við gátum því kysst og kelað eins og okkur sýndist á leiðinni upp eftir. Árný ráðlagði okkur að minnsta kosti að gera það og auðvitað létum við ekki segja okkur það tvisvar. Það er ekki oft sem maður fær leyfi til að hegða sér ósiðlega. Um klukkan ellefu var lagt á fjallið og gangan upp gekk mætavel. Gummi var ótrúlega snöggur að feta upp þrátt fyrir aðeins um mánaðargamalt uppskurðarör á maganum. Ég stóð mig þokkalega líka en Freyja hélt uppi heiðri fjölskyldunnar því hún skeiðaði oftast fremst en brá sér til baka við og við til að athuga hvar snigillinn og skjaldbakan sem fóstra hana væru. Tíkin var sem sagt búin að fara átta ferðir upp og niður fjallið áður en við skriðum á toppinn. Skyggni var lítið fyrst til að byrja með en svo birti skyndilega til og við sáum vítt og breitt um Suðurland. Þokan var fljót að skríða inn yfir landið aftur og lengi var þetta eins og einhver væri að skemmta sér við að draga fyrir og frá glugga. Núna sérðu, núna ekki. Eftir að komið var á toppinn ákvað hópurinn að halda áfram og ganga á tvo aðra tinda í nágrenninu en við Gummi hurfum frá við svo búið. Eins og okkar er von og vísa tókst okkur að komast í hann krappann á leiðinni niður og ég rann einu sinni á rassinn í skriðu og Gumma skrikaði fótur og hann varð að bera fyrir sig höndina. Við komum niður um klukkan 13.30 þreytt og sæl. Þetta er nú svona inntakið í pistlinum sem hvarf og þá getið þið sjálf dæmt um hvort um guðlast er að ræða eður ei.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home