Með roð í kinnum og rjóma á höku
Allir sem þekkja mig eitthvað að ráði vita að ég er fædd með afbrigðum skítsæl. Mamma gat til að mynda aldrei klætt mig í hrein föt þegar ég var barn án þess að búast við að verða að skipta þeim út aftur um eftir u.þ.b. 2,5 sekúndur. Þess vegna greip hún á það ráð að hafa alla tíð tiltæk skiptiföt á mig. Þetta hefur ekki elst af mér en ég er þekkt fyrir að mæta með tannkremsbletti í blússunum mínum í vinnuna og ná að koma mér upp myndarlegum bletti í buxurnar fyrir hádegismat. Nanna Rögnvaldar. samstarfskona mín er með þessum sömu ósköpum fædd og hún sagði mér í trúnaði hér áðan að einu sinni hefði hún haldið þetta vera bundið við það að hún klæddist ljósum fötum. Nú hefur hún sem sagt komist að því að þetta er háð því að hún sé í fötum. En ástæða þess að ég nefni þennan eiginleika minn hér er sú að maðurinn minn er ávallt hreinn og strokinn upp úr og niður úr. Hann má hins vegar ekki setja upp í sig nokkurn munnbita án þess að þess sjáist merki í kinnum hans, á hökunni og stundum ná sletturnar alla leið upp á enni. Dóttir mín hefur erft minn hæfileika en ég hef enn ekki orðið vör við annað en að sonur minn hafi sloppið við báða.
1 Comments:
Jæja elsku móðir. Nú verð ég nú bara að leiðrétta þig mín kæra ég held ða bróðir minn sé búinn ða erfa hæfileikann hans föður mínsþví að þegar drengurinn setur upp í munninn á sér pylsu þá líður ekki langur tími þar til að rauðleit tómatssósan gægist út úr munnvikunum. Já móðir ég held nú bara að þú þurfir bara að veita honum syni þínum meiri athygli. Allavega sé ég ekki annað.
Skrifa ummæli
<< Home