Upp, upp mín sál í morgungleði
Sú var tíð að það versta sem ég gat hugsað mér var að vakna snemma á morgnana. Í þá daga hefði ég selt sál mína fyrir tíu mínútur í viðbót á koddanum. Mætingapunktarnir sem ég fékk í MH segja sína sögu um þetta tímabil og sömuleiðis sú staðreynd að ég skrifaði oft um það í dagbókina mína að ég vildi verða næturvörður þegar ég yrði stór. Eftir að ég fékk tíkina Freyju hef ég hins vegar rifið mig upp eldsnemma á morgnana og farið út að ganga með blessað dýrið. Meðan hún var hvolpur varð ég að vakna klukkan sex til að hún gæti pissað síðan færðist það fram til hálf-sjö en núorðið vakna ég sjö. Það hefur komið mér mjög á óvart hversu fagur heimurinn er að morgunlagi. Morgunhaninn eiginmaður minn hafði að vísu orðað þetta nokkrum sinnum við mig en ég var fullviss um að hann væri að ljúga til að blekkja mig upp úr rúminu fyrir hádegi. Það er fátt fallegra en litríkur morgunhimininn og Kópavogurinn er stundum spegilsléttur og glampandi en þess á milli úfinn og grár eða hvítfryssandi og illskulegur. Öll þessi fjölbreytni er dásamleg og sumt jafnfjölbreytilegt í eftirmiðdaginn sem á morgnana en annað er eitthvað svo ferskt og nýtt að morgni að ekkert jafnast á við það t.d. hreint og kristaltært loftið eða syngjandi, glaðir smáfuglar. Jamm gott fólk það er ekki jafnslæmt og af er látið að vakna á morgnana og hver veit nema maður fari að rífa sig upp klukkan fimm til að gera Mueller's-æfingar í fjörunni.
1 Comments:
Ó, krúttið mitt, þetta hljómar eins og sæt kornflexauglýsing og mann langar hreinlega að fara að vakna fyrir kl. 14 um helgar. Nei, það er sko bara Formúlan sem fær mig til að rífa mig upp á morgnana kl. 11.59.
Skrifa ummæli
<< Home