Tækjafötlun mín segir til sín
Diktafónninn minn lét lífið um daginn. Ég settist ofan á hann og greyið var ekki sterkbyggðara en svo að þar með endaði það lífdaga sína. Ég bað Evu að kaupa nýjan fyrir mig í Fríhöfninni en Guðmundur komst í spilið og fékk hana til að kaupa ógurlega fullkominn digital diktafón. Hingað er blessað tækið komið og það er orðið ljóst að ég þarf meira en helgarnámskeið til að læra á þennan nýja diktafón. Ég efast ekki um það í eina mínútu að hann hengir upp þvott og fer út með hundinn ef rétt er á haldið en ég skil bara ekkert í þessu. Ég er búin að fara yfir leiðbeiningarnar fram og til baka og þar er ekkert sem útskýrir t.d. hvernig er hægt að taka upp í gegnum síma. Ekkert tæki fylgir sem ég get séð að henti til þess. Að vísu fylgir laus míkrófónn en hann er með klemmu á og hentugur til að festa við jakkaboðung eða slíkt en ég sé ekki að gott sé að festa hann við eyrnasnepilinn og tala þannig í síma. Svo er þarna einhver snúra sem ég held að sé til að tengja diktafóninn við tölvu að minnsta kosti er vandséð að hægt sé að tengja hana við síma. Til að taka upp þarf að velja um þrjár möppur A B og S. Ég sé ekki að neinn munur sé á A og B en S er ætluð til að taka upp fram í tímann og þá þarf maður að stilla inn tímann. Ég mun áreiðanlega alltaf stilla á vitlausa möppu því skjárinn er svo lítill að ég sé ekki á hann. Ég veit ekki hvað ég var að gera að leyfa að keypt yrði svona tæki handa jafntækjafatlaðri manneskju og mér. Ég get ekki lært að nota neitt flóknara en on og off takka. Það er alveg öruggt að ég á eftir að klúðra hverri einustu upptöku á þetta tæki. Týna viðtölum, geta ekki hlustað á þau þótt mér hafi tekist að taka þau upp og fleira og fleira. Þetta er skelfilegt ástand. Um þessar mundir leita ég með logandi ljósi að einhverjum skynsemdarmanni sem getur kennt mér að nota nýja tækið á einfaldan hátt og helst stillt það þannig að engin hætta sé á að ég klúðri nokkru. Á meðan reiti ég hár mitt og skegg í örvæntingu.
2 Comments:
Þú átt alla mína samúð. Til hvers er að flækja hlutina fyrir manni. Stundum þegar ég hef verið að reyna að grúska í t.d. að stilla sjónvarp og vídeó saman, núna síðast fyrir Hildu systur, óskaði ég þess að ég hefði getað snúið tökkum frekar en að ýta á einn takka á sjónvarpinu um leið og ég þurfti að ýta á tvo aðra á fjarstýringunni og lyfta upp vinstri fæti ... og gala. Láttu Gumma eiga við fjandans tækið, þetta er allt honum að kenna. Þú getur kannski veitt nokkra fiska á meðan hann tekur nokkur "týnd" viðtöl á helvítis tækið sem var örugglega rándýrt og byggt fyrir tækjanörda sem gestaþraut ... dúllan mín ...
Ég bara get ekki hætt að hugsa um hræðileg örlög gamla tækisins. What a way to go, síðustu augnablik þess hafa án efa verið hryllileg
Skrifa ummæli
<< Home