Það telst tæpast til tíðinda í dag þótt fólk skilji en annað var uppi á teningnum fyrir rúmri öld, eða nánar tiltekið árið 1835, en það ár er fært í kirkjubók Grenjaðarstaðar við nafn Guðnýjar Jónsdóttur undir athugasemdum við brottflutta úr sókninni: „kastað úr hjónabandi saklausri af manni hennar." Þetta er undarleg færsla í kirkjubók og tæpast hlutlaus. Þótt kirkjubækur þegi oft um atburði sem sagnfræðingum þykja mikilsverðir segir þessi færsla okkur að skilnaðurinn er að frumkvæði eiginmannsins og konunni hann á móti skapi. Að baki liggur greinilega einhver merkileg saga.
Guðný var dóttir séra Jóns Jónssonar frá Stærra-Árskógi. Æskuheimili hennar var talið einstakt menningarheimili og þau systkinin gefin fyrir fagrar menntir. Guðný var sögð falleg, fíngerð og einstaklega vel gefin. Hún hafði yndi af tónlist og söng og var skáldmælt. Auk þess var hún örlát og blíðlynd og kom sér að jafnaði ákaflega vel hvar sem var vegna þeirra eðliskosta.
Sveinn Níelsson var talin gáfaður og glæsilegur. Hann leitaði til Jóns föður Guðnýjar vegna heilsubrests, en hann þótti slyngur læknir, og réði sig í vist að Stærra-Árskógi til að leita sér lækninga. Brátt tók að bera á því að hann og Guðný væru farin að draga sig saman og eftir að Sveinn var vígður djákni til tengdaföðurs síns og var síðasti maður sem hlaut djáknavígslu í lútherskum sið á Íslandi þar til á tuttugustu öld. Þegar Sveini var veittur Grenjaðarstaður giftust þau. Á Grenjaðarstað dvöldu ungu hjónin aðeins ár en þá fluttu þau að Klömbrum og var Guðný að jafnaði kennd við þann bæ.
Með ungu hjónunum þótti jafnræði og sennilega hafa flestir talið að björt framtíð biði þeirra. Séra Sveinn var atorkumaður og búmaður góður. Hann var góður smiður og hafði lært silfursmíði hjá Þorgrími gullsmið á Bessastöðum, föður Gríms Thomsen. Sveinn var góður kennari og oft beðinn að búa nemendur undir skóla. Þau hjónin komust því vel af efnalega þrátt fyrir að það orð lægi á að séra Sveini að honum þætti rausn húsmóðurinnar og hjálpfýsi fullmikill á stundum.
Ekki var sambúðin þó með öllu áfallalaus því á fyrstu hjúskaparárunum misstu þau hjónin tvö börn sem þau treguðu mjög, eins og saknaðarljóð sem þau ortu bera vitni um. Stundum færir sorgin fólk nær hvort öðru en í sumum tilfellum sundrar hún. Ómögulegt er að segja hvort sú hafi orðið raunin með þau Guðnýju og Svein en síðar eignuðust þau tvö börn saman sem lifðu og náðu fullorðinsaldri.
Sjaldan lýgur almannarómur segir máltækið og það var haft á orði um séra Svein að hann liti sjálfan sig ósmáum augum og þyldi það illa þætti honum minna úr sér gert en efni stæðu til. Guðnýju var á annan veg farið. Hún gerði gjarnan grín að sjálfri sér og þótti alþýðleg og blátt áfram. Þrátt fyrir ólíka skapgerð varð þess þó aldrei vart að þeim kæmi illa saman eða að erfiðleikar og brestir væru í hjónabandinu. Sennilega hafa menn uppgötvað þennan mismun eftir á og tínt til allar þær ástæður sem þeim gat hugkvæmst til að skýra skilnað sem þótti óskiljanlegur.
Guðný var svo vinsæl af almenningi og öllum sem kynntust henni að menn töldu gjarnan að stórlæti séra Sveins hafi mestu ráðið um skilnaðinn og að hann hafi átt bágt með að þola hve mjög kona hans bar af honum að mannkostum og gáfum. Þegar Guðný dó svo ári eftir skilnaðinn var það einróma álit allra að sorg hennar vegna hans hafi dregið hana til dauða. Þannig er skráð í kirkjubók Grenjaðarstaðar í dánarskránni að hún hafi látist „...af sjúkdómi orsökuðum af skilnaðargremjunni." Dómar almennings lögðust þungt á mann hennar. Bjarni amtmaður Thorarensen kallar hann þræl í bréfi til vina sinna og Tómas Sæmundsson segir í grein í 3. árgangi Fjölnis: „Einnar konu er skylt að minnast meðal þeirra, er önduðust þetta ár, því þó lítt hafi hennar gætt verið – eins og vandi er um konur – voru samt kjör hennar og gáfur íhugunarverðari en almennt er á Íslandi...." Síðar segir hann: „Hún þótti álitlega gift, er djákninn á Grenjaðarstað, gáfumaður og atgervis, hafði fengið hennar, og aungvan hafði grunað, að hann mundi sjá sig það um hönd, eftir níu ára samvistir, að hann vildi breyta þessu, eins og hann gerði. Fór hann þá vestur í Húnavatnssýslu að brauði sem búið var að veita honum; tók vígslu; og er nú giftur aftur! en hún fór með mági sínum og systur norður á Raufarhöfn og má vera, að þetta hafi hana til bana dregið."
Þetta sýnir betur en flest annað hverjum augum séra Sveinn var almennt litinn en vitað er að Guðný tók skilnaðinn ákaflega nærri sér. Hún orti um sársauka sinn ákaflega fallegt kvæði sem hún sendi í bréfi til Kristrúnar systur sinnar á Grenjaðarstað. Kvæðið var birt í Fjölni og varð landfleygt á örskömmum tíma. Upphafserindi kvæðisins er svohljóðandi:
Endurminningin er svo glögg
um allt það, sem í Klömbrum skeði,
fyrir það augna fellur dögg
og felur stundum alla gleði.
Þú getur nærri, gæskan mín,
Guðný hugsar um óhöpp sín.
Síðar í sama kvæði segir hún:
Það er ekki svo þægilegt,
þegar vinanna bregzt ágæti,
hjartanu svíður, heldur frekt,
hamingjan sýnist rýma sætin
inndælar vonir fjúka frá,
fellur skemmtunin öll í dá.
Hún stynur yfir hve hugprýðin sé smá og hversu erfitt sér reynist að horfa fram á daginn á hverjum morgni. Hún segist þó hjara á daginn og hljóta hvíld í svefninum á kvöldin. Guðný orti einnig annað kvæði um skilnaðinn sem heitir Sit ég og syrgi. Hluti af upphafserindi þess hljóðar svo:
Sit ég og syrgi mér horfinn
sárt þreyða vininn,
er lifir í laufgræna dalnum
þótt látin sé ástin.
Séra Sveinn giftist í annað sinn Guðrúnu Jónsdóttur sama ár og Guðný dó eins og kemur fram í grein Tómasar. Það hjónaband var farsælt og áttu þau nokkur börn. Seint verður hægt að komast að niðurstöðu um hvað olli í raun og veru skilnaði þeirra Guðnýjar og Sveins og víst er að konan, sem sagði að það væri svo margt milli hjóna sem enginn sæi, vissi jafnlangt nefi sínu. En hitt er vitað að Sveinn talaði ævinlega vel og hlýlega um fyrri konu sína.