Töfrabirta í ljósaskiptunum
Ég fór með Freyju upp í Heiðmörk í gærkvöldi og sleppti henni lausri. Tíkin kunni að meta frelsið en ég gekk um eins og í leiðslu. Birtan var svo einstök. Einhver rauðgullinn blær á öllu og eldrautt sólarlagið speglaðist í vatninu. Við stóðum upp á hæð og við mér blasti rauður himinn í vestri og dökk rigningarský í austri. Allt um kring var gult, rautt og brúnt lyngið og einhvern veginn blandaðist þetta saman í þvílíka litasimfóníu að ég var gersamlega heilluð. Ég tíndi vænan vönd af haustlyngi og blandaði saman gulu og rauðu bláberjalyngi. Það var nefnilega svo undarlegt að allt lyngið sem óx á bersvæði var rautt en það sem var inni í skóginum gult. Þessi fallegi vöndur skreytir nú stofuna mína. Mér hefur alltaf fundist haustið fallegasta árstíðin og held svei mér að ég hljóti að hafa fæðst að hausti þess vegna.
1 Comments:
Já, haustið er svo sannarlega flott og lyngvöndurinn þinn alveg æðislegur. Ég verð að skella mér upp í Heiðmörk, ég sé það. Kannski get ég snapað mér far með ykkur Freyju einhverntímann ? Verst að ég get ekki hlaupið jafn frjálslega um og tíkin :-)
Skrifa ummæli
<< Home