Pylsubrauð og hrotur
Það er sólskin og sunnanvindur og Sörli ríður í garð. Ég veit ekki hvers vegna mér fljúga þessar fallegu ljóðlínur í hug núna þegar vindur blæs af suðaustri og rignir eldi og brennisteini. Mikil rigningarleti hefur gripið alla íbúa þessa húss bæði loðna sem snögghærða. Freyja svaf undir rúmi til klukkan ellefu í morgun og því eigum við sannarlega ekki að venjast. Týra kúrði sig upp í handakrikanum á mér og svaf jafnvært og tíkin. Ég hraut en Guðmundur var sá eini sem harkaði sér fram úr og sat niðri ásamt Matta sem lá dæsandi á eldhússtól milli þess sem hann reis upp við dogg og sníkti harðfisk með háværu, skræku mjálmi sem sker gegnum merg og bein þannig að allir sem á hlýða verða að stökkva upp og fóðra Ketil skræk. En loksins fór liðið að róta sér og nú erum við búin að fara í gönguferð og verslunarferð í Bónus þar sem við enduðum með að kaupa pylsubrauð sem konan á eftir okkur hafði ætlað sér. Það verður sennilega rekið upp ramakvein á hennar heimili þegar uppgötvast að brauðin vantar en hér þusuðum við nokkra stund yfir að sitja uppi með pylsubrauð sem við höfum nákvæmlega ekkert að gera með.
3 Comments:
Veðrið á höfuðborgarsvæðinu hefur víst þessi letjandi áhrif. Ég sit í sól og blíðu oggulítið norðar. Barðist í bæinn í dag og lét klippa mig og pompaði helling niður. Fauk rennblaut inn á hárgrisssslustofuna og fékk þar nudd til að koma mér til meðvitundar aftur.
Æi, ég sakna þín! Nenni ekki að þú verðir í fríi langt fram á haustið eða fram að afmælinu þínu!
Mikið skelfing er gott til þess að vita að einhver saknar mín. Ég sakna þín reyndar líka Gurrí mín en hugga mig við það að ég á eftir að koma í afmæliskaffi til þín og alles. Svo er á áætlun að ferðast norður í sumar og þá mun ég að sjálfsögðu koma við hjá þér.
Ef maður á pylsubrauð á maður bara að kaupa sér pylsur. Og bjóða Svövu systur sinni í villt pylsupartí.
Skrifa ummæli
<< Home