Landgæði i Selvogi
Til stendur að ég leiðsegi í þriggja tíma gönguferð um Selvog í kvöld. Við Árný fórum í gærkvöldi til að taka út gönguleiðina og höfðum fröken Freyju með okkur. Í túnum bænda voru enn lambær og Freyju fannst ákaflega vel til fundið að láta þær hlaupa ofurlítið. Ég kom því böndum á hana, enda ekkert gott fyrir kindur með júgrin full af mjólk að hlaupa undan hálfvitlausum hundi sem hefur ekki hugmynd um hvernig eða hvert á að smala þeim. Það er fallegt í Selvoginum og einstakar hraunmyndanir þarna um allt. Gróðurinn er aldeilis tekin að blómstra eftir að menn gróðursettu þarna melgresi til að hefta sandfok. Gullkollur er þarna mjög algeng jurt en talið er að hann hafi verið fluttur hingað inn sem fóðurjurt og komið fyrst í Selvog. Þar er jurtin nefnd kattarkló af einhverjum ástæðum. Ofan við byggðina hvelfist Selvogsdyngja, eldfjall sem gaus í lok síðustu ísaldar. Ofan á henni má sjá leifar af gígnum í formi skringilegra og fallegra hóla sem heita Kvennagönguhólar. Nafnið er til komið vegna þess að konur í Selvoginum gengu þar upp til að hafa útsýn yfir Selvogsbanka og litlu bátana sem mennirnir þeirra sátu í þar úti. Þetta verður skemmtileg ganga og ég hlakka mikið til.
2 Comments:
Lukkuskunkur, að geta gengið almennilega ! Mig langar geðveikislega í svona gönguferð eftir lýsinguna. Mrrrrd
Æi, Svavan mín, hvenær er talið að þú getir farið að ganga eitthvað að ráði með hinum greinilega stórkostlega leiðsögumanni, Steingerði? Meira að segja ég, sem hata labb, væri til í góða gönguferð með henni.
Skrifa ummæli
<< Home