Heilarandi í rólunni
Í gamla daga þegar maður þurfti að standa upp úr staðnum sínum í sandkasanum sínum eða fara úr rólunni eitt andartak öskraði maður: „Heilarandi í rólunni.“ (Sandkassanum eða hvað það nú var sem maður var að yfirgefa.) Það voru óskráð lög á leikvellinum að þetta bæri að virða og engum datt í hug að setjast í rólu sem heilarandi var í, enda þótti slíkt hin mesta ósvinna. Lengi frameftir aldri velti ég fyrir mér hvað heilarandi væri og hvers vegna gott væri að skilja hann eftir í rólunni sinni henni til verndar. Það var ekki fyrr en ég var orðin fullorðin að ég uppgötvaði að heilarandinn var heilagur andi. Það skýrði svo sem ekki mikið en ég hef alltaf verið þakklát fyrir að heilarandinn verndaði ýmislegt fyrir ágengum höndum Helenar systur eða allt þar til hún hafði aldur og vit til vanvirða heilarandann.
1 Comments:
Það er svo gaman að svona misskilningi. Stelpa sem var í barnakór með mömmu söng hástöfum í þjóðsöngnum .... "með titrandi tær sem tilbiður guð sinn og deyr!" Mamma og tvíburasystir hennar biluðust úr hlátri, enda hláturmildar snátur.
Skrifa ummæli
<< Home