sunnudagur, júní 18, 2006

Ævintyraferð Freyju

Freyja lenti aldeilis í ævintýrum í dag. Við gömlu hjónin lögðum upp frá Neðstutröðinni um hádegið og héldum upp á Kjalarnes. Þar var opið hús í Gler í Bergvík og Freyja fékk að ganga inn á glerverkstæðið og skoða glerblásarana að störfum. Þetta er áreiðanlega í fyrsta sinn sem jafnfjörugur hundur og Freyja fær að dansa í kringum glermuni. Úr glerinu héldum við upp á Akranes þar sem Guðmundur tók konu upp í bílinn sem reyndist vera Gurrí þegar vel var að gáð. Engu munaði að ég færi að skammast í honum fyrir að eltast við ókunnugar kerlingar en ég var svo viss um að Gurrí biði okkar heima hjá sér að ég leit ekki einu sinni á konuna sem stóð við veginn. Ferðinni var því næst heitið á sveitamarkað í Leirársveit og þar skemmtu allir sér konunglega og Freyja best af öllum. Hún fékk gefins bein frá manni í húsbíl sem átti þarna leið um og uppskar óskerrta aðdáun ýmissa markaðssala og -gesta. Gurrí bauð svo upp á ekta kaffi í sjávarhöllinni á Akranesi og deginum lauk með heimsókn niður á Langasand þar sem Freyja fékk að hlaupa frjáls um stundarsakir.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Mér finnst svo fyndið þegar þú talar um ykkur Gumma sem gömlu hjónin, jafnspræk og hress sem þið eruð, þú frú Steinka stuð rúmlega ári yngri en Madonna sem hleður endalaust niður börnum og fer í tónleikaferðir þess á milli. En þú ert að vísu eldgömul miðað við t.d. dóttur þína. Ókei, samþykki það. En það var tryllingslega gaman að fá ykkur í heimsókn í gær, vonandi komið þið sem oftast!

8:43 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home