Leiðsagt i bak og fyrir
Gangan í Selvoginum gekk vel og við skemmtum okkur konunglega, Freyja, Gummi og ég. Á sunnudaginn fór ég svo Gullna hringinn í fyrsta sinn með tékka. Háa og myndarlega tékka meira að segja þótt fæstir fengjust innleystir í banka. Ég tala mjög litla tékknesku og ekki allir í hópnum tala ensku svo ég var með túlk sem þýddi allt sem ég sagði. Þetta var mun erfiðara en að blaðra út í eitt eins og ég er vön. Allt gekk samt prýðilega ef undanskilin er sú staðreynd að ég týndi hópnum á Þingvöllum en fann þau aftur til allrar lukku annars hefði Íslendingum fjölgað um sextán svo kannski var það vitleysa að leita þau uppi. Óhappið varð vegna þess að ég tók ekki nógu skýrt fram við bílstjórann á hvaða bílastæði hann ætti að bíða. Í dag fór ég svo í borgarferð á vegum Íslandsferða og allir voru mjög hamingjusamir og glaðir að henni lokinni. Ég var hissa á hversu liðlega það gekk. Vonandi heldur áfram sem horfir því þá verð ég forrík í lok sumars.
2 Comments:
Forrík, og munt eyða öllum peningunum í betri fætur handa systur þinni.
Gaman að heyra þetta. Gó görl!!!
Komdu svo með e-ð af þessum útlendingum á Langasandinn í góðu veðri. Ég býð upp á kaffi!
Skrifa ummæli
<< Home