Góður biti í hundskjaft eða þannig sko ...
Við Freyja erum nýkomnar úr þessum fína göngutúr út í Kópavogshöfn og erum bæði hressar og endurnærðar. Freyja þó ögn hressari en ég, enda fékk hún snakk á leiðinni og það er svolítil saga að segja frá því. Ég kom auga á óvenjulega stóra margfætlu á gangstéttinni og stoppaði til að skoða hana ögn betur. Þetta frumhlaup mitt varð til þess að tíkin ákvað að skoða líka og áður en ég vissi af hvarf margfætlan af gangstéttinni og upp í hundinn. Segja má að allir þessir fætur hafi lítt dugað eiganda sínum þegar til átti að taka. Í þessu er auðvitað ákveðin heimspeki fólgin, nefnilega sú að ekki dugar alltaf að eiga tólin sem til þarf. Það þarf að kunna að nota þau eða bara halda sig heima á sólríkum degi þegar hundar eru líklegir til að vera á ferðinni. Hvort þarna fór góður biti í hundskjaft skal ósagt látið, enda þekkti ég þessa margfætlu ekki persónulega en víst er að í skordýrafánu landsins hefur fækkað um einn einstakling. Þegar Freyja ætlaði síðan að sleikja á mér höndina í vináttuskyni eftir snakkið færðist ég undan.
1 Comments:
Grimmlyndi mitt er slíkt að ég lyfti kisunum mínum upp til að þær geti betur veitt óvelkomnar flugur hér á bæ.
Skrifa ummæli
<< Home