Fjöri hleypt í fiðurféð
Svo er farfuglinum fyrir að þakka að ég get aftur skrifað þær fyrirsagnir sem mér hugnast best hér á síðunni. Við hjónin brugðum okkur í ferð til Stokkseyrar í morgun og sáum þar Veiðisafnið og Töfragarðinn og heimsóttum að lokum skemmtilegt gallerí í Bræðratungu sem er bær rétt fyrir utan þorpið. Þar voru tvær tíkur sem Freyja komst strax í góðan vinskap við en svo ákvað galleríeigandinn og íbúi hússins að sýna okkur fallegu landnámshænurnar sínar. Þá gladdist Freyja sem aldrei fyrr og skyndilega fylltist hlaðið af gargandi fiðurfé á harðahlaupum undan glaðlegum, gulum hundi sem veifaði skottinu af ákafa. Eigendurnir gerðu sitt besta til að stöðva skarkalann og bjarga hænunum og það tókst eftir nokkurt japl, jaml og fuður. Hænurnar röltu um og hristu sig móðgaðar og sögðu: OOOOgogoogoo, með helsærðum raddblæ. Blessuð konan sársá auðvitað eftir að hafa í fljótfærni sinni ákveðið að sýna gestunum þessa heimilisprýði og við Guðmundur hunskuðumst skömmustuleg burtu. Einn var þó sem ekki fann fyrir neinni eftirsjá og það var guli hundurinn sem brosti út að eyrum og kvaðst hafa fundið alveg nýja merkingu í orðinu hundakæti.
2 Comments:
Alltaf svo gaman hjá þér! Mikið hefði verið gaman að fá ykkur „í leiðinni“ og gefa ykkur gott kaffi.
Svo fer Gvendur almáttugur á sjóinn á mánudaginn, ekki satt? (Bý í sama húsi og heimildamaður minn sem fór að skæla þegar hann frétti að þið Gummi hefðuð komið til mín á dögunum ... en þá var formaðurinn á veiðum, held ég)
Merkilegt að enn séu þessar hænur kallaðar landnámshænur. Ekki erum við mannfólkið kallað landnámsmenn :-) Þessar hænur munu amk ekki verpa mikið á næstunni, eggin sitja öll föst af einskærri skelfingu.
Skrifa ummæli
<< Home